Innherji

Prófkjörsslagur Innherja: Ásdís og Karen keppa um oddvitasætið í Kópavogi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ásdís kemur úr atvinnulífinu en Karen Elísabet hefur setið í bæjarstjórn undanfarin ár.
Ásdís kemur úr atvinnulífinu en Karen Elísabet hefur setið í bæjarstjórn undanfarin ár.

Tvær takast á um oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Þær eru Ásdís Kristjánsdóttir og Karen Elísabet Halldórsdóttir. Kjörstaður opnaði í morgun og lokar klukkan sex. Stefnt er að því að fyrstu tölur úr prófkjörinu berist um átta.

Ásdís segist leggja ríka áherslu á að standa áfram vörð um ábyrgan rekstur Kópavogsbæjar. „Ég vil stilla álögum á heimili og fyrirtæki í hóf og leita leiða til að lækka þær. Ég sé tækifæri til að fylgja betur fjármagni bæjarbúa eftir með markvissu endurmati útgjalda. Þannig drögum við úr sóun, þannig sköpum við rými til að lækka álögur og þannig tryggjum þann árangur sem að er stefnt.” 

Íþrótta- og æskulýðsfélög gegna mikilvægu forvarnarhlutverki fyrir unga sem aldna. Við eigum að efla það starf enn frekar. Eldri bæjarbúar eiga að fá tækifæri til að búa á heimilum sínum eins lengi og þeir kjósa með nauðsynlegum stuðningi, segir Ásdís

Hún vill framsækni og metnað í menntun barna, sem hún segir eitt helsta einkenni farsælla samfélaga. „Ég vil auka sjálfstæði skóla, huga að auknum sveigjanleika sem nýtist bæði kennurum og vinnustaðnum án þess að slíkt komi niður á menntun nemenda. Uppbygging leikskóla þarf að vera í samræmi við fjölgun íbúa en um leið þarf að finna leiðir til að leysa mönnunarvanda þeirra,” segir Ásdís.

Þá vill Ásdís skapa samfélag sem stuðlar að vellíðan á öllum aldursskeiðum. „Hvort sem horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærumhverfi eða mataræðis barna, eldri borgara eða starfsmanna bæjarins. Íþrótta- og æskulýðsfélög gegna mikilvægu forvarnarhlutverki fyrir unga sem aldna. Við eigum að efla það starf enn frekar. Eldri bæjarbúar eiga að fá tækifæri til að búa á heimilum sínum eins lengi og þeir kjósa með nauðsynlegum stuðningi,” segir hún.

Karen sérstaklega annt um velferðarmálin

Karen Elísabet segir erfitt fyrir bæjarfulltrúa að velja þrjú málefni eftir að hafa unnið að svo mörgum góðum síðustu ár. „Mér er sérstaklega annt um velferðarmál. Bæjarfélag er ekki fyrirtæki í rekstri heldur þjónusta við bæjarbúa og ég vil að bærinn sem ég ólst upp í verði áfram besti bærinn til að búa í,” segir Karen.

Hún leggur áherslu á að hraða skipulagsverkefnum bæjarins og setja kraft í þéttingu byggðar. „Einnig vil ég halda áfram að snjallvæða þjónustu bæjarins á hagkvæman hátt. Svo hef ég áhyggjur af þeirri vegferð sem borgarlínuverkefnið er á, það er ófjármagnað hvað varðar þátttöku ríkisins og það eru mörg snúin skipulagsmál innan Kópavogs sem falla til vegna þessa,” segir Karen.

Ásdís hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífi og starfaði hjá Samtökum atvinnulífsins síðastliðin átta ár.

„Þá hef ég einnig starfað á fjármálamörkuðum, setið í stjórnum fyrirtækja og gegnt trúnaðarstörfum fyrir stjórnvöld. Ég hef verið stjórnandi í rúmlega áratug. Ég hef líka reynslu af stjórnmálum. Í störfum mínum hjá SA hef ég lagt ríka áherslu á að beita mér á sviði hins opinbera og hafa áhrif á stefnu og áherslur kjörinna fulltrúa þar með talið á sveitarstjórnastiginu,” segir Ásdís, en að stöðu sinnar vegna hjá samtökunum hafi hún ekki getað starfað beint fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún hafi hins vegar gegnt trúnaðarstörfum fyrir stjórnvöld meðan Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið við völd og alla tíð kosið flokkinn.

Við erum að sinna ótrúlega mörgum verkefnum allt frá fjárhagsáætlun til útfærslu nærþjónustu við bæjarbúa eins og frá flokkun rusls yfir í að skipuleggja fjárhagsaðstoð og stuðning til þeirra sem minna mega sín, segir Karen

Karen hefur tólf ára reynslu úr sveitarstjórnarmálum og stjórnmálum almennt. „Fyrst sem varabæjarfulltrúi og síðan sem bæjarfulltrúi í Kópavogi í átta ár. Ég hef tekið virkan þátt í rekstri og starfsemi Kópavogsbæjar undanfarin ár og sú vinna er að skila bæjarfélaginu ekki bara góðum rekstri heldur einnig góðri þjónustu við bæjarbúa,” útskýrir hún.

„Eflaust skemmtilegra í meirihluta en minnihluta"

Ásdís telur að það skemmtilegasta við starfið verði að efla bæjarfélagið. „Með samskiptum og í samstarfi við bæjarbúa og starfsfólk.”

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir þeirri stefnu sem ég trúi að geri samfélagið okkar enn betra. Grunngildi flokksins leggja ríka áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfbæran rekstur, að draga úr sóun á almannafé, að tryggja lágar álögur á fólk og fyrirtæki og að leyfa einkaframtakinu að blómstra, segir Ásdís

Karen segir fjölbreytni starfsins skemmtilegasta. „Við erum að sinna ótrúlega mörgum verkefnum allt frá fjárhagsáætlun til útfærslu nærþjónustu við bæjarbúa eins og frá flokkun rusls yfir í að skipuleggja fjárhagsaðstoð og stuðning til þeirra sem minna mega sín í bænum, svo dæmi séu tekin.”

En hvað finnst þeim leiðinlegast?

Ásdís segir ekkert raunverulega leiðinlegt ef maður leggur sitt af mörkum. „En eflaust er skemmtilegra að vera í meirihluta en minnihluta.”

Ég reyndi smá sósíalíska uppreisn í smá tíma en þegar ég komst til vits og ára og ákvað ég að gefa kost á mér í stjórnmálin, þá einfaldlega var stefna Sjálfstæðisflokksins það eina sem höfðaði til mín, segir Karen

Karen nefnir tímaleysið. „Þetta er starf sem fer mikið fram utan hefðbundins vinnutíma og reynir á fjölskyldulífið en þau hafa öll mikinn skilning og styðja mig til góðra verka því þetta skiptir mig miklu máli. Bæjarfulltrúastarf er ekki hugsað sem heilsdagsstarf en ég er svo lánsöm að hafa geta stýrt minni vinnu í kringum bæjarfulltrúastarfið,” segir hún.

Af hverju Sjálfstæðisflokkurinn?

Báðar hafa þær lengi verið Sjálfstæðismenn, þótt Karen hafi reynt sósíalíska uppreisn í skamman tíma. „Það var genetískt til að byrja með, blátt uppeldi og allt það, hefði verið rekin að heiman annars,” segir Karen létt í bragði. „Ég reyndi smá sósíalíska uppreisn í smá tíma en þegar ég komst til vits og ára og ákvað ég að gefa kost á mér í stjórnmálin, þá einfaldlega var stefna Sjálfstæðisflokksins það eina sem höfðaði til mín; frelsi til athafna, viðskipta og sjálfstæði þjóðar,” segir Karen.

Ásdís hefur verið skráð í flokkinn í rúmlega 22 ár og aldrei kosið annað. „Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir þeirri stefnu sem ég trúi að geri samfélagið okkar enn betra. Grunngildi flokksins leggja ríka áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfbæran rekstur, að draga úr sóun á almannafé, að tryggja lágar álögur á fólk og fyrirtæki og að leyfa einkaframtakinu að blómstra, svo dæmi séu tekin.”

Að hennar mati nægir að horfa á sveitarfélögin í kringum okkur á höfuðborgarsvæðinu til að átta sig á mikilvægi þess að hafa Sjálfstæðisflokkinn við völd. „Það einfaldlega helst í hendur við traustan og ábyrgan rekstur. Hið sama er ekki hægt að segja um Reykjavík þar sem reksturinn er ekki sjálfbær og stefnir í óefni með tilheyrandi skuldasöfnun.

Á næstu dögum og vikum mun Innherji birta viðtöl við oddvitaefni í spennandi prófkjörum og forvölum flokkanna sem eiga sér stað í sveitarfélögunum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×