Viðskipti innlent

Mikil­vægt að virkja til þess að ná fullum orku­skiptum

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. vísir/vilhelm

Forsætisráðherra telur mikilvægt að virkja til þess að ná fullum orkuskiptum ásamt því að forgangsraða þeirri orku sem við framleiðum í orkuskipti innanlands. Aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar segir næstu skref í höndum stjórnmálamanna.

Aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar fagnar skýrslu um orkumál sem kom út í gær. Hún telur að ef taka eigi út bensín og olíu þá þurfi að setja eitthvað nýtt inn í staðinn.

„Við erum auðvitað að tala um það mikið magn að við sjáum það að það þurfi auðvitað nýja orku þarna inn,“ sagði Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Forsætisráðherra segir mikilvægt að forgangsraða þeirri orku sem við framleiðum í orkuskipti hér innanlands.

Þurfum við ekki að virkja ef við ætlum að ná markmiðum um orkuskipti? 

„Ég held að það hafi ekki nokkur maður neitað því að það sé mikilvægt að virkja til þess að ná fullum orkuskiptum. Spurningin er hversu mikið? Hvernig getum við nýtt núverandi virkjanir betur eins og hefru verið rætt og boðað að þurfi að gera,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Hún segir að horfa þurfi til annarra möguleika en vatnsaflsvirkjana. Til að mynda vindorkuvera.

Tímafrekt að reisa virkjun

Formaður starfshópsins sem vann skýrsluna sagði í gær að ef við ætlum að tvöfalda raforkuframleiðslu Íslands þurfi að reisa eina 100 Megawatta virkjun á ári fram til ársins 2040. Kristín segir að það taki tíu til fimmtán ár að hanna og gera rannsóknir svo hægt sé að sækja um leyfi og svo taki fimm ár að byggja virkjun.

„Þannig að við erum auðvitað að sjá það að tímaramminn fyrir svona stærri virkjanaframkvæmdir er auðvitað dálítið langur þannig við verðum að vera líka dálítið skynsöm í því hve miklum árangri við getum náð,“ sagði Kristín.

Kristín Linda Árnadóttir er aðstoðarforstjóri Landsvirkjunnar.arnar halldórsson

Flokkur Katrínar hefur verið hvað andvígastur virkjunum í gegnum tíðina. Katrín segir Vinstri græna standa fremst í flokki í loftslagsmálum og því telji flokkurinn mikilvægt að taka ákvarðanir um virkjanir frá faglegum forsendum.

„Þess vegna höfum við viljað halda í þetta ferli rammaáætlunar og tryggja að við séum þar líka ekki bara að ákveða kosti til að virkja til framtíðar heldur líka hvaða svæði við ætlum að vernda til framtíðar,“ sagði Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×