Miðað við það nemur skortstaða félagsins, sem er sjóðastýringarfyrirtæki í eigu Kviku banka, tæplega 200 milljónum króna en markaðsvirði VÍS stendur nú í 35 milljörðum króna og hefur lækkað um liðlega níu prósent frá áramótum.
Tilkynna þarf um allar skortstöður í skráðu félagi sem fara yfir 0,5 prósent af hlutafé þess til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands en þetta er í fyrsta sinn sem skortstaða Kviku eignastýringar í VÍS fer yfir þau mörk. Afar sjaldgæft er að fjárfestar skortselji tiltekin fyrirtæki í Kauphöllinni með svo umfangsmiklum hætti en á undanförnum fimm árum hefur það aðeins gerst tvisvar áður.
Fagfjárfestasjóðurinn Algildi skortseldi þannig Reiti síðla ársins 2020 – mest nam skortstaðan 0,81 prósenti af hlutafé fasteignafélagsins – og hið sama gerðu sjóðir í rekstri GAMMA Capital gagnvart eldsneytisfélaginu N1 á árinu 2017.
Tryggingafélagið VÍS skilaði methagnaði á síðasta ári og yfir 40 prósenta arðsemi á eigið fé. Hagnaður félagsins nam tæplega 7,7 milljörðum króna og meira en fjórfaldaðist frá fyrra ári. Þar munaði mestu um góða afkomu af fjárfestingarrekstri VÍS en tekjur af þeirri starfsemi voru 8,3 milljarðar, sem jafngilti um 18,7 prósenta nafnávöxtun yfir árið, og jukust um 3 milljarða.
Frá áramótum hefur hlutabréfaverð VÍS lækkað um 9,3 prósent, sem er sambærileg lækkun og hjá hinu tryggingafélaginu sem er skráð á markað, Sjóvá, en sé litið til síðustu tólf mánaða hefur það hækkað um tæplega 22 prósent.
Stærstu hluthafar VÍS í lok síðasta mánaðar voru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Frjálsi.