Körfubolti

Má enn ekki spila á heimavelli en skoraði fimmtíu í dýrmætum sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Kyrie Irving var magnaður gegn Charlotte Hornets í gær.
Kyrie Irving var magnaður gegn Charlotte Hornets í gær. AP/Chris Carlson

„Þetta var meistaralega gert,“ sagði Kevin Durant og byrjaði að klappa þegar hann var spurður út í ævintýralega frammistöðu félaga síns, Kyrie Irving, í bráðnauðsynlegum 132-121 sigri á Charlotte Hornets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Irving var sjóðheitur í leiknum og endaði með 50 stig. Hann setti meðal annars niður níu þriggja stiga skot og sá til þess að fjögurra leikja taphrinu Brooklyn lyki.

Staðan er enn þannig að vegna Covid-19 reglna í New York má Irving ekki spila heimaleiki, þar sem hann er óbólusettur, en í staðinn nýtir hann tækifærin á útivelli. Hann skoraði úr 15 af 19 skotum sínum í opnum leik, þar af úr 9 af 12 þriggja stiga skotum, og svo úr 11 af 13 vítaskotum.

„Yngri leikmenn ættu að skoða þennan leik og sjá hvað til þarf til að skora á þessu getustigi,“ sagði Durant.

Héldu sér fyrir ofan Charlotte

Þetta er í fimmta sinn á ferlinum sem að Irving nær 50 stiga leik og hann er einn af 22 leikmönnum í sögu NBA-deildarinnar sem geta státað sig af því.

Irving sagði sjálfur að sér hefði liðið eins og að Brooklyn yrði hreinlega að vinna leikinn og það er kannski ekki ofsögum sagt.

Með sigrinum er Brooklyn í 8. sæti austurdeildarinnar, einum sigri fyrir ofan Charlotte og því í aðeins betri stöðu varðandi umspilið fyrir úrslitakeppnina sem útlit er fyrir að Brooklyn-stjörnurnar neyðist til að fara í.

Úrslitin í nótt:

  • Charlotte 121-132 Brooklyn
  • Indiana 124-127 Cleveland
  • Orlando 99-102 Phoenix
  • Memphis 132-111 New Orleans
  • Oklahoma 115-142 Milwaukee
  • Golden State 112-97 LA Clippers

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×