Anton Sveinn keppti í nótt á TRY PRO-mótaröðinni en fór keppnin að þessu sinni fram í Westmont í Bandaríkjunum. „Víkingurinn“ Anton hafði náð frábærum árangri aðeins degi áður er hann synti frábærlega í 100 metra bringusundi en nú var komið að 200 metrunum.
Anton Sveinn gerði sér lítið fyrir og var fyrstur inn í úrslitasundið á tímanum 2:15,91 mínútu. Hann gerði svo gott betur í úrslitasundinu þar sem hann synti á 2:12,68 mínútum og kom þriðji í mark.
Íslandsmetið – sem Anton á sjálfur – er 2:10,21 mínútur.
Anton Sveinn er því nú þegar búinn að tryggja sér sæti á HM50 sem fram fer í Búdapest í Ungverjalandi í júní og EM50 sem fram fer í Róm á Ítalíu. Mun hann keppa í bæði 100 metra og 200 metra bringusundi þar.