Fótbolti

Rússar áfrýja keppnisbanni FIFA og UEFA

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rússar ætla að áfrýja ákvörðun FIFA og UEFA um að banna rússnesk lið frá keppnum á vegum sambandanna.
Rússar ætla að áfrýja ákvörðun FIFA og UEFA um að banna rússnesk lið frá keppnum á vegum sambandanna. Jakub Porzycki/Getty Images

Rússneska knattspyrnusambandið ætlar að áfrýja ákvörðun FIFA og UEFA um að lands- og félagslið Rússlands megi ekki taka þátt í keppnum á vegum sambandanna til gerðardóms íþróttamála.

Lands- og félagslið Rússlands voru bönnuð frá keppnum á vegum alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, og knattspyrnusambands Evrópu ,UEFA, síðastliðinn mánudag.

Í kjölfarið greindi rússneska knattspyrnusambandið frá því að sambandið myndi leggja fram kæru á hendur FIFA og UEFA þar sem krafist yrði þess að rússnesk lið fengju að taka þátt í keppnum á vegum sambandanna.

Rússar vilja að karlalandsliðið geti tekið þátt í umspilsleikjum sínum fyrir HM í Katar og að kvennaliðið fái aftur þátttökurétt á EM á Englandi í sumar.

Þá var Spartak Moskvu hent út úr Evrópudeildinni og því eru andstæðingar þeirra í 16-liða úrslitum, RB Leipzig, komnir sjálfkrafa áfram.

Í yfirlýsingu frá rússneskum knattspyrnuyfirvöldum kemur fram að þau telji að FIFA og UEFA hafi ekki lagalega heimild til þess að fjarlægja rússnesk lið úr keppni.

„Rússneska knattspyrnusambandið átti heldur ekki rétt á því að útskýra sína stöðu, en það brýtur á grunnréttindum um að fá að verja sig,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

„Að auki skoðuðu FIFA og UEFA enga aðra kosti en algjöra útilokun rússneskra þátttakenda við ákvarðanatöku sína.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×