Í byrjun árs 2019 komst Hæstiréttur að niðurstöðu í máli sem varðaði fjárkröfu Íslandsbanka á hendur Héðinsreit ehf. en félagið naut veðréttinda í fasteigninni Vesturgötu 64 í Reykjavík. Fasteignin var seld á nauðungaruppboði að kröfu Reykjavíkurborgar vegna vangoldinna fasteignagjalda.
Byr sparisjóður hafði veitt Héðinsreit lán á grundvelli fjármögnunarsamnings gegn veðrétti í fasteigninni og var lánið hluti af því lánasafni sem Íslandsbanki keypti af Byr haustið 2011. Lýsti bankinn því kröfu sinni á nauðungaruppboðinu
Niðurstaða Hæstaréttar var sú að Íslandsbanki fengi 676 milljónir króna greiðslu vegna úthlutunar á söluverði fasteignarinnar en upphæðin skyldi geymd á bankareikningi þar til niðurstaða fengist í öðru tengu dómsmáli.
Héðinsreitur hafði fengið skaðabótaskyldu vegna riftunar Byrs á fjármögnunarsamninginum viðurkennda fyrir dómi og taldi félagið sig eiga kröfu til skuldajafnaðar við kröfu Íslandsbanka.
Fyrir viku síðan kvað Landsréttur upp úrskurð í málinu þar sem hann sneri við fyrri dómi héraðsdóms og ef sá úrskurður fær að standa óbreyttur er ekkert því til fyrirstöðu að Íslandsbanki fái fjármunina greidda út.