Reyndar þykir prump í sumum teymum ákveðinn húmor. Þannig hefur Atvinnulífið heimildir fyrir því að á hinum virðulegustu vinnustöðum leynist alls kyns fag-prumparar: Starfsmenn sem leggja mikið á sig til að prumpa á réttum tíma, á réttan hátt og með ákveðið markmið í huga. Til dæmis að kenna öðrum samstarfsfélaga um eða stríða.
En að öllu gamni slepptu:
Að leysa vind í vinnunni getur verið mjög neyðarlegt að upplifa. Þó vitum við að allt fólk og reyndar dýr líka, þarf reglulega að leysa vind.
Þá átta fæstir sig á því að það er eðlilegt fyrir líkamann að prumpa 14-23 sinnum á dag. Á Vísindavefnum má lesa alls kyns fróðleik um vindgang og rop. Þar segir til dæmis:
Allir hafa loft í meltingarveginum sem líkaminn þarf að losa sig við og til þess notar hann ropa eða prump. Þetta loft á sér tvenns konar uppruna, annars vegar loft sem við gleypum og hins vegar loft sem myndast við niðurbrot ómeltanlegrar fæðu.
Hér eru nokkur ráð til að lágmarka þau vandræðaaugnablik, sem skapast geta þegar fólk óvart rekur við í vinnunni.
Að reyna að prumpa í fámenni
Ef þú finnur að þú þarft að leysa vind, er gott að reyna að reka við þegar þú gengur um og þá helst á svæði þar sem annað fólk er ekki statt. Gæti til dæmis verið undir yfirskininu að vera að sækja þér kaffi
Að prumpa inni á klósetti
Að prumpa í bílnum eða úti áður en þú ferð inn á vinnustaðinn
Að prumpa þegar þú ferð út af vinnustaðnum
Að prumpa í tómu rými, til dæmis fundarherbergi sem ekki er í notkun
Að prumpa á stigagangi í vinnunni (slepptu lyftunni ef þú telur þig þurfa að reka við)
Hvað þú borðar og hvernig
Sleppa því að vera með tyggjó því þegar þú ert með tyggjó, myndast meira munnvatn og eins ertu að gleypa loft þegar þú tyggur. Saman eykur þetta líkurnar á að þú þurfir að leysa vind oftar.
Þegar þú borðar er gott að vanda sig við að gleypa ekki loft um leið og þú borðar, því þannig myndast loft í meltingarveginum sem líkaminn vill síðan losa sig við með prumpi eða ropi.
Forðast kolvetni. Til dæmis reka margir mjög oft við vegna þess að þeir drekka mikið gos.
Forðast mat sem þú veist að þú prumpar af. Margir þekkja þetta hjá sjálfum sér en eins er hægt að gúggla og finna upplýsingar um ýmsar fæðutegundir sem þú ert að borða og eru líklegur orsakavaldur af miklum vindgangi.
Í apótekum er líka hægt að fá upplýsingar um til dæmis góðgerla sem geta dregið úr vindgangi.
Þegar þú prumpar innan um vinnufélaga
Fyrstu og algengustu viðbrögðin hjá flestum er að þykjast ekki hafa prumpað. Láta eins og ekkert hafi í skorist.
Oft kemur þó roði í andlitið og/eða einhver svipbrigði sem í raun koma upp um að vinnufélagarnir voru ekkert að ímynda sér: Þú varst að prumpa.
Mjög oft verður reyndar enginn var við neitt. Því oft leysir fólk vind án þess að það heyrist og ef það er lykt, þá er hún oft mjög væg.
En ef svo er ekki og prumpið heyrist og/eða lyktar illa, er besta ráðið hreinlega að segja bara „afsakið“ og láta augnablikið (og lyktina!) líða hjá. Með því að biðjast afsökunar ertu í rauninni að viðurkenna að það „slapp“ eitt út hjá þér, þú veist af því og þér þykir það leitt.
Þú getur líka gert bara góðlátlegt grín og hlegið. Það getur gert vinnufélögunum auðveldara fyrir því oft veit fólk ekki hvernig það á að bregðast við.
Það sama gildir þá einnig um það þegar vinnufélagi rekur við í þinni nærveru. Gott er að lesa þá í viðbrögðin hjá vinnufélaganum.
Ef viðkomandi ætlar sér að láta eins og ekkert hafi í skorist, gerðu þá bara það sama: láttu eins og ekkert hafi í skorist.
Ef vinnufélaginn segir afsakið, þá bara kinkar þú góðlátlega kolli. Svona „ég skil þig“ merki.
Eða að þú brosir eða hlærð góðlátlega, ef það eru þau viðbrögð sem viðkomandi ætlar að grípa til.