Samkvæmt kæru átti meint brot Arons og Eggerts sér stað eftir landsleik Íslands og Danmerkur í Danmörku árið 2010.
Aron og Eggert lýstu báðir opinberlega yfir sakleysi sínu í yfirlýsingum fyrr í vetur, áður en þeir voru boðaðir til skýrslutöku hjá lögreglu fyrir þremur mánuðum.
RÚV greindi frá því í gær að rannsókn lögreglu á málinu væri lokið en Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar, staðfesti það.
Málið er því komið inn á borð ákærusviðs sem tekur ákvörðun um framhaldið.
Málið var tekið upp að nýju í haust, um það leyti sem íslenska landsliðið var að fara að mæta Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM og var Aron Einar ekki valinn í landsliðshópinn fyrir þá leiki.
Aron, sem leikur með Al Arabi í Katar, hefur ekki spilað með landsliðinu síðan í júní á síðasta ári en landsliðsferli Eggerts, sem er leikmaður FH, lauk fyrir þremur árum.