Veður

Appelsínugul viðvörun á Vestfjörðum og Snæfellsnesi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Veður á norðanverðu landinu er í verra laginu í dag.
Veður á norðanverðu landinu er í verra laginu í dag. Veðurstofa Íslands

Veðurofsinn er ekki alveg yfirgenginn, þá sérstaklega ekki fyrir íbúa Snæfellsness, Vestfjarða og Norðurlands en stormur mun ríða yfir svæðin í dag.

Appelsínugul veðurviðvörun tekur gildi á norðanverðum Vestfjörðum núna klukkan átta og gildir til miðnættis með vindhraða á bilinu 18 til 28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s. Einnig er spáð talsverðri snjókomu og skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum en lítið ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. 

Á Breiðafirði tekur appelsínugul viðvörun gildi klukkan níu og gildir til miðnættis með vindhraða á bilinu 18 til 25 m/s. Storminum fylgir talsveðr snjókoma og skafrenningur með takmörkuðu skyggni norðantil á svæðinu. Búast má við hviðum allt að 30 m/s við fjöll. 

Á Ströndum og Norðurlandi vestra tekur gul viðvörun gildi klukkan níu og gildir hún til miðnættis með vindhraða á bilinu 15 til 23 m/s, fyrst á Ströndum. Búast má við mjög hvössum vindstrengjum við fjöll sem geti farið yfir 30 m/s og talsverðri snjókomu eða éljagangi með tilheyrandi skafrenningi. 

Á Norðurlandi eystra tekur gul viðvörun gildi á hádegi og gildir til miðnættis með 13 til 20 m/s og snjókomu eða skafrenningi. Búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×