Taktikal þróar fjölbreyttar stafrænar lausnir og ferla sem auka traust á netinu og flýta fyrir viðskiptum með því að auka sjálfvirkni í stafrænum lausnum alls staðar þar sem skjöl og undirskriftir koma við sögu.
„Við ákváðum að byggja upp þessa lausn til að koma til móts við viðskiptavini okkar sem eru í samningagerð víðs vegar um heim. Hér á landi erum við vön rafrænum skilríkjum en afar fá lönd bjóða upp á þann kost. Mörg íslensk fyrirtæki eiga í viðskiptum til dæmis á Bretlandi, í Bandaríkjunum, í Rússlandi og víðar þar sem rafræn skilríki eru ekki í boði. Þessa nýja tegund undirritunar byggir á tveggja þátta auðkenningu með notkun bæði símanúmers og netfangs. Þessi leið tryggir að einungis sá sem fær beiðnina senda í tölvupósti getur undirritað, vegna þess að hann fær einnig öryggisnúmer sent í SMS. Þetta eykur öryggi viðskipta til muna“, segir Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Taktikal.
Þessar undirritanir henta einna helst fyrir almenna viðskiptasamninga, ráðningasamninga og trúnaðaryfirlýsingar. Hverju skjali fylgir vottaður tímastimpill sem sannar hvenær undirritun átti sér stað. Innsiglun á skjalinu kemur svo í veg fyrir að ekki er hægt að breyta skjalinu síðar. Lausnin sér svo til þess að langtímavarðveisla er tryggð.
Hér á landi erum við vön rafrænum skilríkjum en afar fá lönd bjóða upp á þann kost. Mörg íslensk fyrirtæki eiga í viðskiptum til dæmis á Bretlandi, í Bandaríkjunum, í Rússlandi og víðar þar sem rafræn skilríki eru ekki í boði.
„Margir eru enn fastir í þeim hugsunarhætti að þegar undirrita skal viðskiptasamning verði það að vera gert á útprentaðan pappír með penna og það sé eina leiðin til að tryggja að undirskrift sé ekta. Það hefur sýnt sig og sannað að rafrænar undirskriftir geta leyst prentaða pappíra af hólmi á einfaldan og öruggan hátt. Hverju undirritunarferli fylgja nauðsynleg lýsigögn, til dæmis um hver undirritaði hvað og hvenær, hvenær skjalið var búið til og hvenær það var innsiglað. Í raun fylgja mun meiri upplýsingar rafrænu skjali heldur en prentuðu skjali og er því mun öruggari leið“, segir Valur.
Taktikal var stofnað snemma árs 2017 af Vali Þór Gunnarssyni, Bjarka Heiðari Ingasyni og Jóni Björgvini Stefánssyni sem höfðu áður starfað sem sérfræðingar í fjármála- og hugbúnaðargeiranum. Brunnur Ventures fjárfesti nýlega í félaginu fyrir 260 milljónir króna. Taktikal hefur einnig fengið tvo styrki frá Tækniþróunarsjóði að upphæð 75 milljónir króna.