Erlent

Fyrsta konan sögð læknuð af HIV-veirunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan fékk stofnfrumur úr blóðvökva sem tekinn var úr naflastreng ungabarns með náttúrulegar varnir gegn HIV-veirunni.
Konan fékk stofnfrumur úr blóðvökva sem tekinn var úr naflastreng ungabarns með náttúrulegar varnir gegn HIV-veirunni. Getty

Bandarísk kona með hvítblæði er sögð hafa læknast af HIV-veirunni við stofnfrumuígræðslu frá gjafa með náttúrlegar varnir gegn veirunni sem veldur alnæmi. Um er að ræða fyrstu konuna sem læknast af veirunni en tveir menn hafa áður læknast.

Vísindamenn sögðu frá þessum vendingum í gær en fjögur ár eru síðan konan fékk stofnfrumur úr blóðvökva sem tekinn var úr naflastreng nýfædds barns, samkvæmt frétt Washington Post.

Fjórtán mánuðir eru síðan veiran greindist síðast í konunni. Þá hætti hún að taka lyf sem halda veirunni niðri og þrátt fyrir það hefur hún ekki greinst aftur í konunni.

Konan ku vera á miðjum aldri og af blönduðum uppruna. Árangurinn þykir til marks um að þessi nýja aðferð gæti verið notuð til að lækna fleiri af HIV-veirunni.

Þeir tveir sem höfðu áður læknast voru hvítur maður og annar af rómönskum uppruna. Þeir höfðu báðir fengið stofnfrumur úr fullorðnum gjöfum. Öll voru læknuð af HIV við krabbameinsmeðferð.

Fylgjast með 25 öðrum sjúklingum

Reuters segir konuna taka þátt í rannsókn þar sem fylgst er með 25 einstaklingum sem eru með HIV og hafa fengið stofnfrumuígræðslu úr blóði úr naflastreng vegna krabbameins eða annarra alvarlegra veikinda.

Fyrst fara sjúklingarnir í lyfjameðferð og í kjölfar hennar fá þeir stofnfrumuígræðslu frá aðilum með sérstakar stökkbreytingar sem verja þau gegn HIV-veirunni. Samkvæmt Reuters telja vísindamennirnir sem að rannsókninni koma að það veiti ónæmiskerfum sjúklinganna auknar varnir gegn veirunni.

Þessari aðferð væri ekki hægt að beita til að lækna langflesta HIV-sjúklinga en sérfræðingar segja þetta skref í rétta átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×