Sem félagsmaður í Eflingu hef ég fylgst spenntur með breytingum í félaginu okkar á síðustu árum. Kjarasamningalotan 2018-2020 var mikil prófraun fyrir nýja forystu. Allt var gert til að leggja stein í götu okkar. Ný forysta félagsins – fremst í flokki Sólveig Anna Jónsdóttir formaður félagsins - lét aldrei deigan síga og náði mjög góðum samningum bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðnum.
Niðurstaða mín er alveg skýr: Sólveig Anna kann að leiða kjarabaráttu. Hún kann þá list að blása félagsmönnum baráttuanda í brjóst, og hún kann að tala máli þeirra við samningaborðið og í fjölmiðlum. En hún kann líka að fylkja fólki saman og leiða fram samstöðuna sem öllu skiptir. Þess vegna treysti ég Sólveigu Önnu til að vera formaður Eflingar.
Mikið hefur gert til að setja athyglina í þessari kosningabaráttu á aðra hluti heldur en árangur Eflingar í kjarabaráttunni. Það kemur kannski ekki á óvart, enda eru valdamikil öfl í samfélaginu sem vilja ekki sjá herskáa verkalýðsbaráttu. Fyrir mig sem félagsmann í Eflingu er það samt þannig, að árangur í kjaramálum skiptir öllu máli.
Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með árásum úr öllum áttum gegn Sólveigu Önnu. Ég er henni mjög þakklátur fyrir þær fórnir sem hún hefur fært, til þess að setja loksins félagsfólk í fyrsta sæti í öðru stærsta stéttarfélagi landsins. Það var ekki fyrr en hún varð formaður að Efling fór að skipta máli í íslensku samfélagi.
Ég hvet Eflingarfélaga til að standa við bakið á Sólveigu Önnu og kjósa Baráttulistann áður en kosningu lýkur á þriðjudaginn, vegna þess að það skiptir máli að sá sem leiðir kjarabaráttuna næsta vetur hafi reynslu, þrautseigju og hugrekki. Ekki má missa sjónar á lokamarkmiði okkar Eflingarfélaga, sem eru bætt kjör, þrátt fyrir fjaðrafok um önnur mál. Þótt kjarabarátta verka- og láglaunafólks sé ekki auðveld, þá hefur Sólveig Anna sýnt að það er mögulegt að ljúka kjaraviðræðum með farsælum hætti. Þess vegna skiptir lykilmáli að hafa hana í brúnni.
Höfundur er félagi í Eflingu - stéttarfélagi