Lífið

Fyrstu sautján stefnumótin á fjöllum og gera nú eigin ferðaþætti

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Garpur og Rakel ætla að kynna Íslendinga fyrir fallegum stöðum og skemmtilegum ævintýrum.
Garpur og Rakel ætla að kynna Íslendinga fyrir fallegum stöðum og skemmtilegum ævintýrum. Mynd úr einkasafni

Garpur Elísabetarson og Rakel María Hjaltadóttir fara um helgina af stað með nýja þætti á Lífinu á Vísi. Þættirnir kallast Okkar eigið Ísland.

Parið er duglegt að ferðast og skoða fallega staði og lenda oft í ýmsum ævintýrum og sýna oft frá því á samfélagsmiðlum.

„Við kynntumst eiginlega á Instagram,“ segir Rakel um það hvernig þeirra ástarsaga byrjaði haustið 2020. 

„Við töluðum aðeins saman þar og ákváðum svo að fara í fjallgöngu sem er mjög viðeigandi fyrir okkur,“ segir Rakel og hlær.   

Í þessari klippu hér fyrir neðan má sjá brot af því sem þau hafa deilt með fylgjendum sínum á Instagram síðustu mánuði. 

Klippa: Garpur og Rakel skoða Ísland

„Fyrsta deitið var fjallganga og ég held að næstu sautján þar á eftir hafi verið fjallganga eða einhvers konar útivist. Við fórum ekki í bíó eða út að borða fyrr en við vorum búin að vera saman í ár eða eitthvað,“ bætir Garpur við.

„Við vorum búin að fara tvisvar hringinn í kringum Ísland og upp á svona sautján fjallstinda og fimm jökla áður en við fórum í bíó.“

Parið hefur lent í ýmsum ævintýrum á ferðlaögum sínum og fá lesendur Vísis smá innsýn í þau í þáttunum.Mynd úr einkasafni

Þau búa saman í dag en eru enn mjög dugleg að fara í fjallgöngur saman og sjást reglulega á samfélagsmiðlum myndir af þeim að hlaupa á fjallsbrún og klifrandi í klettum eða á ísbroddum uppi á einhverjum jökli. 

„Við spáðum alveg í því hvort að þetta myndi ganga þegar við myndum byrja venjulegt líf og værum ekki saman uppi á fjalli, hvort þetta myndi ganga þegar við myndum byrja að Netflixa og chilla. en við erum alveg jafn miklir haugar líka á móti. Svo það var bara frábært. það er bara mjög gott jafnvægi,“ útskýrir Garpur.

„Þegar það er gott veður þá förum við út og þegar það er vont veður þá förum við upp í sófa.“

Mynd úr einkasafni

Garpur og Rakel voru mjög spennt að fá tækifæri til þess að gera þætti um allar íslensku perlurnar sem þau skoða í sýnum frítíma, litlar og stórar. 

„Við fundum það líka þegar við vorum að sýna frá okkar ferðalögum á samfélagsmiðlum, að fólk var að senda okkur og spyrja hvar við værum. Maður fær mikið af fyrirspurnum, því fólk hefur kannski ekki hugmynd um að það sem við erum að gera sé yfir höfuð til,“ segir Rakel. 

Fyrstu stefnumótin þeirra voru öll á fjöllum.Mynd úr einkasafni

Hún segist spennt að sýna fólki alls konar ævintýri og fer sjálf vel út fyrir þægindarrammann í mörgum þeirra. 

„Hvort þú vilt eitthvað action eða komast í litla fjallgöngu, þá er svo margt í boði sem fólk veit ekki af. Á öllum þessum stöðum sem við förum á er alltaf allt krökkt af túristum en þar eru engir Íslendingar,“ segir Rakel.

„Einu Íslendingarnir sem við hittum eru leiðsögumenn,“ segir Garpur. „En við erum líka að leita að öðruvísi stöðum, líka til þess að fá bara næði til að njóta og taka myndir og svona. “

Rakel og Garpur eru ekki með tökumann með sér og taka allt um sjálf með aðstoð gopro-véla og dróna.Mynd úr einkasafni

„Þættirnir eru bara við að fíflast, að vera við sjálf og skoða magnaðar náttúruperlur,“ segir Rakel um þættina Okkar eigið Ísland. 

„Ég hvet fólk til að fylgjast sérstaklega með því hvað Rakel dettur oft,“ segir Garpur þá stríðinn. Rakel er mikill hlaupari en hafði aldrei farið í klettaklifur áður en hún kynntist Garpi. Parið var því nálægt sambandsslitum í ferðinni sem sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan. 

„Þættirnir eru bara Instagram-story á sterum. Við erum ekki með tökumann, bara GoPro og dróna,“ segir Garpur um þættina. „Þetta er bara mjög heimilislegt. Allt ferðalagið og alveg upp á fjallstind,“ segir Rakel. 

„Þetta verða átta þættir og þeir verða sýndir á Lífinu á Vísi alla laugardaga. Veðrið hefur verið að stríða okkur sem var samt fyndið. Því venjulega eltum við veðrið bara en núna þurftum við bara að vona það besta og fara út þó veðrið væri ekki fullkomið.“

Garpur I. Elísabetarson og Rakel María Hjaltadóttir fara af stað með þættina Okkar eigið Ísland á laugardag á Lífinu á Vísi.Okkar eigið Ísland

Við tökurnar lentu þau líka alveg í því að þurfa að snúa við á leiðinni vegna veðurs. 

„Við hittumst skemmtilega í miðjunni. Hún er miklu betri hlaupari en ég og ég hef verið að gera meira extreme hluti áður en við kynnumst. Hún dregur mig núna út að hlaupa og ég dreg hana upp á fjall í einhverjar aðstæður,“ segir Garpur.

„Ég reyni að halda kúlinu á hlaupum en þegar hún lítur undan þá er ég með lungun í bandi. En svo dreg ég hana upp á fjöll og jökla en hún bara getur allt. Sem er geggjað en samt næstum því svolítið pirrandi. “

Rakel segir að hún sé alltaf spennt fyrir nýjum ævintýrum og áskorunum, en viðurkennir þó að það hafi verið erfitt að fara í fyrsta sinn í klettaklifur utan á Hraundranga. 

„Ég var örugglega í einhverju taugaáfalli. Ég hló og grét og allt saman til skiptis. Ég var búin að ákveða að ef ég kæmist aftur niður, þá myndi ég aldrei tala við hann aftur.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Garpur tók þegar hann fór upp á Hraundranga.

Hér má svo sjá fallegt myndband sem hann tók á Grænahrygg í sumar. Fyrsti þátturinn af Okkar eigið Ísland kemur svo út 12. febrúar en þar verður ein íslensk náttúruperla heimsótt í hverjum þætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×