Innherji

Vextir hækka um 75 punkta, spá yfir 5 prósenta verðbólgu fram eftir ári

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu Seðlabankans, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. vísir/vilhelm

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 75 punkta. Vextir hækka þannig úr 2 prósentum upp í 2,75 prósent. 

„Verðbólguhorfur hafa versnað töluvert frá síðasta fundi nefndarinnar og mældist verðbólga 5,7 prósent í janúar. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig aukist og er talin vera ríflega 4 prósent,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar. 

„Þá hafa verðbólguvæntingar á suma mælikvarða hækkað. Hækkun húsnæðisverðs vegur þungt en aðrir innlendir kostnaðarliðir hafa einnig hækkað. Við bætist hækkun alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs.“

Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði 5,8 prósent á fyrsta fjórðungi ársins og yfir 5 prósent fram eftir þessu ári. Bankinn gerir ráð fyrir Gert er ráð fyrir að verðbólga hjaðni þegar hægir á verðhækkun húsnæðis og alþjóðlegar verðhækkanir fjara út.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála var hagvöxtur um 1 prósentu meiri á síðasta ári en spáð var í nóvember eða um 4,9 prósent. Spáð er svipuðum hagvexti í ár. 

„Störfum hefur haldið áfram að fjölga og atvinnuleysi að minnka og er áætlað að framleiðsluslakinn sem myndaðist í kjölfar COVID-19-farsóttarinnar sé horfinn. Óvissa er hins vegar enn mikil.“

Afgerandi meirihluti markaðsaðila gerði einmitt ráð fyrir því, samkvæmt könnun Innherja, að Seðlabanki Íslands myndi hækka vexti um 75 punkta í dag. Þáttakendur sögðu að verðbólgan væri komin vel yfir spár og langt væri í næstu ákvörðun, og trúverðugleiki Seðlabankans var sagður í húfi.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,5 prósent í janúar á þessu ári, þvert á allar spár greinenda, og mælist tólf mánaða verðbólga því 5,7 prósent. Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 50 punkta í nóvember spáði bankinn því að verðbólga yrði 4,4 prósent á fyrsta fjórðungi þessa árs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×