Sérstaklega var rætt um nýlega úttektarskýrslu sem fjallaði um reynsluna af starfi peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gegnir formennsku í fjármálastöðugleikanefnd og peningastefnunefnd, og í upphaflega lagafrumvarpinu árið 2019 var lagt upp með að seðlabankastjóri myndi einnig vera formaður fjármálaeftirlitsnefndar. Niðurstaðan varð hins vegar sú að Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, gegnir formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd.
Í skýrslunni kom fram að skilgreina bæri með fullnægjandi hætti hvað af verkefnum fjármálaeftirlits þyrfti að fela sérstakri nefnd og hvað tilheyrði hefðbundinni stjórnsýslu innan Seðlabankans. Úttektarnefndin hefur áhyggjur af því að umgjörðin af hendi löggjafans um ákvarðanir, sem geta snúist um refsingar einstaklinga og fyrirtækja, sé ekki eins og best verður á kosið.
„Núverandi fyrirkomulag um víðtækt starfssvið nefndarinnar er óraunhæft og í raun er brugðist við því með víðtæku framsali frá nefndinni til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits. Nær væri að löggjafinn skilgreindi á gagnsæjan hátt verkefni nefndarinnar og stöðu varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits,“ segir í skýrslunni.
Að mati skýrsluhöfunda ætti seðlabankastjóri að gegna formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd eins og í hinum tveimur nefndunum. Undir þetta tekur Óli Björn.
„Það er alveg ljóst, og það er reynsla sem er alveg skýr á þessum tveimur árum — og ég hygg að við þurfum ekki fleiri en tvö ár til að sjá að mismunandi formennska býr til flækjustig og það gerir einnig hið margbrotna framsal valds,“ sagði Óli Björn.
„Og hin lagskipta stjórnsýsla,“ bætti hann við, „sem búin er til í kringum eftirlitskerfi innan sömu stofnunar flækir þetta allt saman, eins og úttektarnefndin bendir á.“
Mikilvægar ábendingar að sögn forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að úttektarnefndin hefði sett fram mikilvægar ábendingar sem þyrfti að rýna vel.
„Það er líka mikilvæg ábending frá nefndinni að ef ekki verði ráðist í breytingar hvað varðar verksvið þessarar nefndar sé eigi að síður mikilvægt að breyta skipulagi þannig að seðlabankastjóri gegni formennsku í fjármálaeftirlitsnefnd eins og í hinum tveimur nefndum bankans,“ sagði Katrín.
„Úttektarnefndin bendir á að mismunandi formennska, sem og það framsal valds og hin lagskipta stjórnsýsla sem fylgir eftirlitsverkefnum innan sömu stofnunarinnar, sé of mikið flækjustig. Ég tel sömuleiðis rétt að við rýnum þessa ábyrgð.“