Það verða engar breytingar kynntar eftir ríkisstjórnarfund á morgun, enda tókst ekki að undirbúa þær í tæka tíð. Því er gert ráð fyrir að eftir fundinn á föstudaginn verði kynntar tilslakanir. Heilbrigðisráðherra boðar að þær verði verulegar.
Síðast tóku gildi breytingar á sóttvarnatakmörkunum í dag, þegar einangrun einkennalítilla var stytt í fimm daga úr sjö.
Á skemmtistöðum eru enn töluverðar reglur við lýði. Hvort sem var á Prikinu, AUTO eða á Bankastræti Club, voru öll hólf full á skemmtistöðum um helgina en aðeins til miðnættis.
„Það voru bara allir í skýjunum. Þannig að fólk er mjög glatt að geta farið loksins aftur út og hitt vini sína og skemmt sér. Ég held að það séu allir komnir með leið á spilakvöldunum,“ segir Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club.
Þótt Birgitta fallist erfitt sé að halda fólki í skefjum þegar það sé að skemmta sér, segir hún að nú sé svo komið að á nær öllum sviðum samfélagsins sé búið að létta á hömlum - nema á klúbbunum.
„Veiran er bara hérna, greinilega. En hún hoppar ekki á milli hólfa og kemur ekki fyrr en eftir miðnætti. Við bara vinnum með það sem við höfum,“ segir Birgitta.
Draumurinn væri nokkrir tímar í viðbót en þar eru líklega aðrir ákafari en Birgitta, sem hefur allajafna ekki opið nema til um tvö.
„Við erum öll saman í spjalli og fólk talar alveg um að þetta sé alveg ágætlega þægilegt. Opnunin styttist, launakostnaður minnkar og fólk bara hagar sér betur. En þetta er samt heldur stutt núna,“ segir Birgitta.