Sport

Enn ein stóra breytingin hjá CrossFit samtökunum: Eric Roza hættir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Roza verður ekki lengur framkvæmdastjóri CrossFit samtakanna.
Eric Roza verður ekki lengur framkvæmdastjóri CrossFit samtakanna. Instagram/@rozaeric

Eric Roza hefur ákveðið að færa sig til innan CrossFit samtakanna en hann hefur tilkynnt að hann verði ekki lengur framkvæmdastjóri heldur færir hann sig inn í yfirstjórnarherbergið sem stjórnarformaður.

Roza sagði í yfirlýsingu sinni að þetta hafi alltaf verið framtíðarmarkmið hans en hann hafi hraðað því að taka þetta skref. Hann ætlaði að gera það eftir þrjú ár en gerir það eftir eitt og hálft ár.

Roza eignaðist CrossFit fyrir átján mánuðum og hefur unnið markvisst að því að taka til innan samtakanna eftir storminn í kringum stjórnarhætti fyrrum eiganda Greg Glassman.

Það var mikið verk að snúa við skipinu og heimsfaraldurinn gerði verkefnið enn erfiðara enda hefur innkoma samtakanna tekið á sig mikið högg. Roza tók líka stórar og erfiðar ákvarðanir en leitaði líka til samfélagsins í leit að lausnum.

Nú síðast rak hann íþróttastjórann og yfirmann heimsleikanna Dave Castro sem fór reyndar ekki alltof vel í CrossFit samfélagið. Castro var búinn að vinna markvisst að uppgangi íþróttarinnar með þróun sinni á heimsleikunum sem hafa stækkað og breyst mikið í hans tíð.

CrossFit er ekki búið að finna eftirmann Roza í framkvæmdastjórastólnum og það lak heldur ekki út listi með líklegum kostum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×