Erlent

Þjóðin fylgist agn­dofa með leit að fimm ára dreng sem féll í brunn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Stórvirkar vinnuvélar eru notaðar til að grafa skurð við brunninn.
Stórvirkar vinnuvélar eru notaðar til að grafa skurð við brunninn. AP Photo

Marókkóska þjóðin fylgist nú agndofa með björgunartilraunum yfirvalda þar í landi sem miða að því að koma fimm ára dreng sem féll tugi metra ofan í brunn til bjargar.

Björgunaraðgerðir hafa staðið yfir í um tvö daga. Talið er að drengurinn, Rayan, að nafni hafi fallið 32 metra ofan í þröngan vatnsbrunn í bænum Tamrout.

Myndefni úr myndavél sem send var niður til drengsins staðfesti að hann væri enn á lífi og með meðvitund, þó með sár á höfði. Búið er að senda mat og súrefni niður til drengsins í von um að hann haldi út á meðan reynt er að ná til hans.

Það sem torveldar björgunaraðgerðir er það að þvermál brunnopsins er aðeins um 25 sentimetrar. Þá þrengist brunnurinn við 25 metra dýpi. Stórvirkar vinnuvélar eru á svæðinu til þess að grafa við hliðin á brunninum, en talið er að það sé eina leiðin til að ná til drengsins.

Þegar þessi frétt er skrifuð er talið að um sjö metrar séu þangað til að hægt sé að nálgast drenginn. Fara þarf þó mjög varlega við gröftinn svo brunnurinn hrynji ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×