„Ég held að það sé alveg ljóst að sveitarfélög geta ekki haldið áfram á sömu braut,“ segir Haraldur í samtali við Innherja. Kostnaður vegna launa, launatengdra gjalda og breytinga á lífeyrisskuldbindingum nam 53 prósentum af tekjum sveitarfélaga að meðaltali árið 2010 en árið 2020 var hlutfallið komið upp í 60 prósent að meðaltali hjá A-hluta sveitarfélaga.
Afgangurinn þarf að standa undir öðrum rekstrargjöldum, fjármagnskostnaði og nýframkvæmdum og er því minna eftir til þess árið 2020 en var 2010. Mismunurinn, 7 prósent af tekjum ársins 2020, er um 26 milljarðar króna. Einhver hluti af þessari hækkun gæti verið vegna COVID en Haraldur segir ljóst að annað hvort þarf að draga úr launagjöldum eða hækka tekjur.
„Árið 2010 voru 11 sveitarfélög með launahlutfall af tekjum 60 prósent og hærra en nú er þetta orðið meðaltal allra sveitarfélaga,“ segir Haraldur.
Aukningu kostnaðar má annars vegar rekja til hækkun launa og hins vegar fjölgun stöðugilda á síðustu árum. Stöðugildum hjá sex stærstu sveitarfélögum landsins fjölgaði um nærri 8 prósent á milli áranna 2019 og 2021 eins og Innherji hefur greint frá. Hlutfallslega var aukningin mest hjá Reykjavíkurborg sem fjölgaði stöðugildum um 13,5 prósentum á tímabilinu.
Fjölgun stöðugilda hefur þó ekki verið án alls tilefnis. Haraldur bendir á að þeim sem nýta þjónustu fyrir fatlað fólk hafi fjölgað um hátt í 70 til 80 prósent frá því að málefni fatlaðra voru færð yfir til sveitarfélaga árið 2011. Stytting vinnuvikunnar er önnur skýring en sveitarfélög hafa þurft að ráða starfsfólk til að fylla í skarðið sem styttingin skilur eftir sig, sérstaklega er varðar vaktavinnufólk.
En Haraldur segir að sveitarfélög þurfi einnig að horfa á inn á við. „Það hefur verið ör tækniþróun hvað varðar alla skrifstofuvinnu sem dæmi en ég held að sveitarfélög – og þetta gildir einnig um ríkið og jafnvel sum fyrirtæki – hafi ekki lagað sig sem skyldi að breyttum aðstæðum.“
Bókhald er lítið dæmi sem varpar þó ljósi á eðli vandans að hans sögn. „Fyrir tíu árum fengu nánast öll sveitarfélög reikninga í pósti. Þá þurfti að slá inn allar kennitölur, fjárhæð reikninga, dagsetningar, eindaga o.s.frv., og skanna reikningana inn í kerfið. Í dag taka þau ekki við reikningum í pósti. Þeir eru sendir stafrænt og í versta falli þarf að slá inn lykilnúmer til að samþykkja þá,“ útskýrir Haraldur.
„Mín tilfinning er að mörg sveitarfélög hafi ekki fækkað stöðugildum í takt við þessa þróun. Þetta er ekki eitthvað sem skiptir miklu máli í stóra samhenginu en allt telur þetta þó. “
Vísbendingar um misráðna blöndu
Þótt fjölgun stöðugilda sé áhyggjuefni í sjálfu sér er ekki síður mikilvægt að hugavel að samsetningu starfsfólks þannig að fjölgun skili sér að minnsta kosti í bættri þjónustu. Haraldur veltir því upp hvort það hafi gengið eftir t.d. í grunn- og leikskólakerfinu.
Á milli áranna 2015 og 2020 fjölgaði nemendum í grunnskólum landsins um 6,7 prósent en á sama tíma fjölgaði stöðugildum um 19 prósent samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar. Þannig fækkaði nemendum á hvert stöðugildi úr 6,4 niður í 5,8. Hluti af fjölguninni gæti verið vegna skipulagsbreytinga en að teknu tilliti til þess er fjölgun stöðugilda í grunnskólum 16% á tímabilinu.
„Þrátt fyrir þessa fjölgun á stöðugildum umfram hlutfallslega fjölgun nemenda er rætt um mikið álag. Þá má spyrja hvernig þróunin hafi verið hjá grunnskólum frá aldamótum. Það hefur orðið gríðarleg breyting á samfélaginu, til dæmis fjölgun nemenda sem eru af erlendu bergi brotnir o.s.frv. Ég velti fyrir mér hvort skólanir hafi þróast í takt við tímann. Hjá sumum sveitarfélögum er enn verið að kenna í fámennum bekkjum eftir árgöngum o.s.frv. eins og gert var fyrir síðustu aldamót.“
Inn í þetta spilar hugmyndin um skóla án aðgreiningar sem hefur verið í aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011. Hún felur í sér að komið sé til móts við námsþarfir allra nemenda án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
„Ég velti fyrir mér hvort við höfum mætt þessari breytingu, þ.e. skóli án aðgreiningar á réttan hátt. Er hægt að vera með skóla án aðgreiningar, sem felur í sér að grunnskólar taki inn börn sem eiga við fötlun eða veikindi að stríða, án þess að gera breytingar á skólakerfinu þannig að huga þurfi jafnframt að velferðarþjónustu í grunn- og leikskólum? Erum við með rétta samsetningu af starfsfólki til að takast á við þetta? Þurfum við ekki meira af fagfólki öðru en kennurum í grunn- og leikskólakerfinu.“
Eins og áður kom fram fjölgaði stöðugildum í grunnskólum um 19 prósent á árunum 2015 til 2020, eða um 1.284 stöðugildi. Þar af fjölgaði kennurum og stjórnendum um 633 og stuðning- og uppeldisfulltrúum, sem eru jafnan ófaglærðir, fjölgaði um 242.
Tómstunda- og íþróttafulltrúum fjölgaði um 172 en frístundamál hafa færst inn í grunnskólana í auknum mæli þannig að ef til vill er ekki um beina fjölgun stöðugilda hér að ræða. Sálfræðingum og námsráðgjöfum fjölgaði ekki nema um 15 og þroskaþjálfum um 72.
„Spurningin er hvort við eigum svo erfitt með skólakerfið okkar vegna þess að skólarnir hafa ekki réttu blönduna af fagfólki. Hugsanlega þurfum við að leggja meiri áherslu á að fjölga starfsfólki með aðra uppeldismenntun en kennaramenntun til að bæta þjónustuna. Með því er ég ekki að gera lítið úr faglegri þekkingu núverandi starfsfólks en sálfræðingur hlýtur af hafa meiri fagþekkingu á sálfræði heldur en kennari o.s.frv,“ segir Haraldur.
„Á undanförnum árum höfum við lagt til við sveitarfélög, sem við höfum unnið með, að þau taki til endurskoðunar skólastefnuna þar sem hugað verði enn frekar að velferðarþjónusta sem hluta af skólastarfi.“
Þrátt fyrir þessa fjölgun á stöðugildum umfram hlutfallslega fjölgun nemenda er rætt um mikið álag. Þá má spyrja hvernig þróunin hafi verið hjá grunnskólum frá aldamótum.
Álíka þróun má sjá í leikskólum milli áranna 2015 og 2020 þar sem stöðugildum hefur fjölgað um 641 á sama tíma og leikskólabörnum hefur fækkað um 486. Í byrjun tímabilsins voru 3,7 börn á hvern leikskólastarfsmann en er nú komið niður í 3,2 börn. Þessi framsetning er að vísu nokkur einföldun þar sem margir þættir hafa hér áhrif svo sem aldur barna o.s.frv. Hins vegar gefur þetta ákveðna vísbendingu.
Sundurliðun á þróun stöðugilda sýnir að leikskólakennurum fækkaði um 118 en starfsmönnum með aðra uppeldismenntun fjölgaði um 210. Ófaglærðu starfsfólki fjölgaði hins vegar um 593.
„Síðan er hitt stóra málið að það er skortur á fagfólki, okkur vantar fleiri talmeinafræðinga, sálfræðinga, skólafélagsráðgjafa, þroskaþjálfa o.s.frv. Þannig að ljóst má vera að samhliða þeim breytingum sem hér er spurt um hvort ekki þurfi að gera áætlun um hvernig aukinni eftirspurn eftir þessu fagfólki verði mætt,“ segir Haraldur „Það snýr að ríkinu. Þannig að hið opinbera þarf að taka höndum saman um hvernig þessari þörf verði mætt til lengri tíma litið.“
Sveitarfélög setji sér markmið
Viðsnúningur á þróun launakostnaðar er snar þáttur í því að koma rekstri sveitarfélaga á réttan kjöl. Á röskum 40 árum, frá árinu 1980 til 2020, sýna gögn Hagstofunnar að heildarafkoma sveitarfélaga hefur verið neikvæð í 33 ár og jákvæð í aðeins 8 ár, síðast árið 2007.
Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga eru þessar tölur mikilvæg vísbending um að „rekstur sveitarfélaga sé ekki sjálfbær til lengri tíma litið,“ eins og sambandið orðaði það í umsögn sinni við síðasta fjárlagafrumvarp.
Ég held að það sé alveg ljóst að sveitarfélög geta ekki haldið áfram á sömu braut
Haraldur segir dæmi um sveitarfélög sem séu komin nálægt því að vera með neikvætt veltufé frá rekstri. „Það hefur ekki sést í 10 til 15 ár og er mjög alvarlegt mál.“
Aftur á móti er hægara sagt en gert að vinda ofan fjölgun stöðugilda á síðustu árum.
„Það er alltaf erfitt að fækka starfsfólki sé þess þörf,“ segir Haraldur. „En ef sveitarfélög átta sig tímanlega á því að fjölgun stöðugilda getur ekki gengið ár eftir ár – í stað þess að halda áfram þar til í óefni er komið – þá er hægt að setja markmið um fjölgun og ná þeim með því að sleppa endurráðningum þegar starfsmaður segir upp eða lætur af störfum,“ segir Haraldur.
Eftir að kórónuveiran kom til sögunnar fengu sveitarfélög heimild stjórnvalda til að víkja frá fjármálareglum um jafnvægi í rekstri til lengri tíma en gert var ráð fyrir þágildandi lögum. Heimildin gildir nú til ársins 2025.
Samkomulag á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og íslenska ríkisins miðar við að heildarafkoma sveitarfélaga batni úr því að nema -1,1 prósent af landsframleiðslu árið 2021 í -0,4 prósent árið 2026. Skuldir sveitarfélaga hækka á sama tímabili úr 6,9 prósent af landsframleiðslu í 8,5 prósent en samkomulag er um að skuldir hækki ekki frá 2026.