Þetta kom fram á upplýsingafundi sóttvarnalæknis og almannavarna í dag. Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að fólk gæti átt von á því að þurfa að bíða í 1-2 daga eftir niðurstöðu úr PCR-sýnatöku. Afkastagetan nú væri um 6500 sýni á dag en hefði verið í kringum 10 þúsund þegar Íslensk erfðagreining sá um massann af sýnunum.
Þórólfur sagði að ávallt hefði verið um tímabundna aðstoð frá Íslenskri erfðagreiningu að ræða, sem væri eftir sem áður klár á hliðarlínunni ef ástandið yrði alvarlegt. Nú þyrfti heilbrigðiskerfið að standa á eigin fótum. Þó héldi Íslensk erfðagreining áfram að raðgreina sýni.
Aðeins fólk með einkenni ætti að fara í PCR-próf. Þeir sem væru forvitnir um hvort þeir væru með Covid-19 en einkennalausir ættu að fara í hraðpróf. Jákvæða niðurstöðu úr þeim þyrfti eftir sem áður að staðfesta með PCR-prófi.
Þá sagði Þórólfur viðbúið að taka þyrfti upp frekari notkun hraðprófa verði greiningarþörfin meiri en sem nemur um 6500 sýnum á dag.