Innherji

Stærsti hluthafinn bætir við sig í Kviku fyrir um milljarð

Hörður Ægisson skrifar
Marinó Örn Tryggvason er forstjóri Kviku en hlutabréfaverð bankans er niður um 10 prósent frá áramótum.
Marinó Örn Tryggvason er forstjóri Kviku en hlutabréfaverð bankans er niður um 10 prósent frá áramótum.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti hluthafinn í Kviku, stækkaði stöðu sína í bankanum í nýliðnum mánuði þegar hann keypti samanlagt 35 milljónir hluta að nafnvirði, sem jafngildir rúmlega 0,7 prósenta eignarhlut.

Hlutabréfaverð Kviku hefur lækkað um meira en 10 prósent frá áramótum á meðan Úrvalsvísitalan er niður um 4 prósent.

Þetta sýnir uppfærður listi yfir stærstu hluthafa Kviku banka í lok janúar en ætla má að LSR hafi keypt bréfin fyrir liðlega um 900 milljónir króna – gengi bankans var að jafnaði á bilinu 24 til 26 krónur á hlut í síðasta mánuði – en LSR fer í dag með, bæði í gegnum A og B deild sjóðsins, samtals 8,5 prósenta hlut í Kviku. Markaðsvirði þess eignarhlutar er yfir 10 milljarðar króna.

Þá jók Almenni lífeyrissjóðurinn einnig lítillega við hlut sinn í bankanum, eða um 7 milljónir hluta að nafnvirði, en sjóðurinn á núna rétt rúmlega tveggja prósenta hlut í Kviku.

Á sama tíma og lífeyrissjóðirnir voru að auka við hlutdeild sína í Kviku á fyrsta mánuði þessa árs þá seldi hlutabréfasjóðurinn Akta Stokkur talsvert af bréfum sínum. Sjóðurinn átti tæplega 78 milljónir hluta í bankanum í lok ársins 2021, sem jafngilti um 1,6 prósenta eignarhlut, en í dag kemst hann ekki á lista yfir þá hluthafa sem ráða yfir meira en eins prósenta hlut í Kviku.

Hlutabréfaverð Kviku banka hefur verið undir talsverðum þrýstingi á undanförnum vikum og mánuðum. Frá því í lok nóvember, þegar gengi bréfa bankans stóð hvað hæst í 28,5 krónum á hlut, hefur hlutabréfaverðið lækkað um liðlega 17 prósent. Það er umtalsvert meiri lækkun en hinna bankanna sem eru skráðir á markað, Arion og Íslandsbanka, yfir sama tímabil.

Hlutabréfaverð Kviku stendur nú í 24 krónum á hlut og hefur staðið í stað það sem af er degi í tæplega 400 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni.

Á meðal þess sem hefur ýtt undir verðlækkanir á bréfum bankans, samkvæmt viðmælendum Innherja á markaði, var sala fjárfestingafélagsins Stoða – sem þá var stærsti hluthafi bankans – á síðari hluta nóvembermánaðar á um þriðjungi bréfa sinna fyrir samanlagt um 3,5 milljarða og eins þegar Ragnar Dyer, fjármálastjóri Kviku, seldi í byrjun þessa árs 3 milljónir hluta að nafnvirði fyrir tæplega 80 milljónir króna. Hafði hann nýtt áskriftarréttindi til að kaupa bréf í bankanum á genginu 7,21 króna á hlut en salan fór fram á genginu 26,4 krónur á hlut.

Kvika sendi frá sér jákvæða afkomutilkynningu um miðjan síðasta mánuð þar sem kom fram að hagnaður á fjórða ársfjórðungi yrði á bilinu 2,6 til 2,7 milljarðar króna fyrir skatta en það samsvarar árlegri arðsemi á eigið upp á liðlega 26 prósent. Afkomuspá bankans fyrir árið 2021 í heild gerir ráð fyrir því hagnaður Kviku verði um 10,5 milljarðar króna fyrir skatta sem jafngildir tæplega 35 prósenta arðsemi.

Þegar gengi bréfa Kviku stóð hæst fyrir rúmlega tveimur mánuðum var markaðsvirði Kviku  liðlega 140 milljörðum króna. Í dag nemur það 118 milljörðum og hefur því lækkað um meira en 20 milljarða króna á tímabilinu.


Tengdar fréttir

Forstjóri Kviku: „Við erum rétt að byrja“

„Kvika hefur stækkað úr litlu félagi upp í eitt af stærstu félögum landsins. Þrátt fyrir það er markaðshlutdeild okkar lítil víða. Félagið er fjárhagslega sterkt og tækifærin til þess að auka samkeppni eru víða. Við erum rétt að byrja,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×