Í vísindaskáldskap hafa geimfarar lengi lagst í dvala eða fryst sig til að gera geimferðir auðveldari en nú er útlit fyrir að vísindaskáldskapur sé enn einu sinni að teygja anga sína til raunveruleikans.
Þegar menn verða sendir til Mars á komandi árum gera sérfræðingar ráð fyrir því að þeir þurfi að taka með sér vatn og mat fyrir tveggja ára ferðalag.
Vísindamenn ESA áætla að þegar tekið sé saman hvað fylgi hverjum geimfara á degi hverjum sé það um 30 kíló. Þar er um að ræða mat sem þeir borða, vatn sem þeir drekka, loft sem þeira anda úrgang, umbúðir sem fylgja öllum birgðum og annað.

Þó yrði eflaust hægt að draga úr því að einhverju leyti með því að rækta mat um borð í geimfarinu og endurvinna drykkjarvatn úr þvagi og saur. Allur sá búnaður sem til þyrfti myndi þó einnig vega mikið og taka mikið pláss.
Burtséð frá þyngd og plássi þarf einnig að taka tillit til þess andlega álags sem langar geimferðir í takmörkuðu rými og miklu návígi valda.
Birnir sambærilegastir mönnum
Í nýrri grein á vef ESA segir að mörg dýr í náttúrunni hafi sýnt fram á getu til að draga verulega úr líkamsstarfsemi og leggjast í dvala til lengri tíma. Það geri þau vegna til að lifa af kulda, skort á fæðu og vatni. Vísindamenn ESA líta þó til bjarndýra.
Þeir hafi margir sambærilegan massa og menn og menn ættu að þola sambærilega lækkun líkamshita og birnir upplifa í dvala. Þá eru bjarnategundir sem leggjast í dvala í sex mánuði, án þess að missa mikinn vöðvamassa. Þeir eru einungis um tuttugu daga að komast aftur í hefðbundið form.
Ef maður myndi leggjast niður í sex mánuði myndi hann tapa miklum vöðvamassa og beinastyrk, auk þess sem líkurnar á hjartaáfalli myndu aukast til muna.
Hér má sjá frægt atriði úr Alien þar sem áhöfn geimskipsins Nostromo vaknar úr dvala.
Eins og birnir þyrftu mennskir geimfarar að safna upp fitubirgðum áður en þeir myndu leggjast í dvala.
Takist vísindamönnum að leggja geimfara í dvala yrðu langar geimferðir mun auðveldari í framkvæmd en dvalinn gæti þar að auki varið geimfara gegn skaðlegri geislun sem segulsvið jarðarinnar ver okkur gegn.

Vísindamenn ESA, sem birtu rannsóknargrein um dvala í geimferðum í desember, segja lítið magn testósteróns virðast skipta sköpum í dvala spendýra og estrógen hafi mikla stjórn á efnaskiptum í líkamanum. Þá segja þeir vísbendingar um að auðveldara sé að setja konur í dvala en menn og því séu þær mögulega betri geimfarar í löngum geimferðum.
Þeir leggja til að byggja nokkurs konar skeljar fyrir geimfara þar sem aðstæður yrðu kjörnar fyrir dvala. Birta væri lítil, hitastig undir tíu gráðum og raki mikill. Gervigreind gæti svo fylgst með heilsu geimfaranna í gegnum skynjara og sömuleiðis fylgst með ástandi geimfarsins.
Hver skel ætti að vera umkringd vatni sem myndi verja geimfaranna gegn hættulegri geislun.