Innlent

For­­seti viður­­kennir mis­tök varðandi grímu­­skyldu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segist bera ábyrgð á því að gildandi sóttvarnareglum hafi ekki verið fylgt.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segist bera ábyrgð á því að gildandi sóttvarnareglum hafi ekki verið fylgt. Vísir/Egill

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segist bera ábyrgð á því að ekki hafi verið farið eftir gildandi sóttvarnareglum við veitingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem fram fóru í liðinni viku.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 25. janúar síðastliðinn og vöktu netverjar athygli á því að sóttvarnareglum hafi ekki verið fylgt á viðburðinum.

Við þessu hefur Guðni nú gengist og segist hann biðjast innilegrar afsökunar á mistökunum. Því miður hafi reglum um grímuskyldu ekki verið fylgt og á því beri hann ábyrgð.

„Eftir að gestir höfðu fengið sér sæti í salnum var grímunotkunar ekki krafist, en það samræmdist ekki gildandi sóttvarnarreglum. Ég ber ábyrgð á þeim misskilningi. Sömuleiðis var það misráðið af mér að fallast á undanþágu til að halda slíkan viðburð á Bessastöðum, segir Guðni í færslu á Facebook síðu sinni.

Hann bætir við að forsetaembættið hafi reglulega frestað viðburðum eða fallið frá þeim og einsett sér að fylgja öllum tilmælum í hvívetna.

„Sá eða sú, sem gegnir embætti forseta Íslands, á að ganga á undan með góðu fordæmi. Nú fór svo að það sem helst hann varast vann, varð að koma yfir hann, eins og sálmaskáldið orti, eða sjálfsmark á lokakaflanum svo að notuð sé samlíking úr heimi boltaíþrótta. Ég biðst innilega afsökunar á þessum leiðu mistökum.“


Tengdar fréttir

Hallgrímur tók þrennuna

Hallgrímur Helgason hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í þriðja sinn nú í kvöld. Þórunn Rakel Gylfadóttir og Sigrún Helgadóttir hlutu einnig verðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×