Sport

Bjarni: Leið eins og við værum tuttugu stigum undir í hálfleik

Andri Már Eggertsson skrifar
Bjarni Magnússon var ánægður með sigur kvöldsins
Bjarni Magnússon var ánægður með sigur kvöldsins Vísir/Hulda Margrét

Haukar fóru til Keflavíkur og unnu átta stiga sigur 72-80. Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, var afar ánægður með sigur kvöldsins. 

„Í opnum leik voru við að tapa fjórtán boltum í fyrri hálfleik, okkur tókst að einfalda hlutina í seinni hálfleik sem endaði með að við töpuðu aðeins einum bolta í seinni hálfleik.“

„Í seinni hálfleik fórum við að hreyfa boltann meira og þá fékk Lovísa (Björt Henningsdóttir) opin skot sem hún gerði vel í að nýta sér,“ sagði Bjarni Magnússon. 

Leikurinn var í járnum í þrjá leikhluta en Haukar fóru illa með Keflavík í 4. leikhluta og var Bjarni ánægður með sínar stelpur á báðum endum vallarins.

„Okkur tókst að spila skipulagðan sóknarleik og það gekk einfaldlega allt betur, við pössuðum boltann vel og vörnin á hálfum velli var góð.“

Bjarni hrósaði vörn Hauka í seinni hálfleik og var hann ánægður með að hvorki Tunde Kilin né Daniela Wallen Morillo skoruðu í seinni hálfleik. 

„Við töluðum um það í hálfleik að mér fannst við vera spila eins og við værum að tapa með tuttugu stigum þrátt fyrir að vera þremur stigum yfir. Varnarlega framkvæmdum við hlutina betur í seinni hálfleik sem ég var ánægður með.“

Liðin mætast aftur á sunnudaginn kemur og grínaðist Bjarni með að Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, ætlaði að fá far með honum í Hafnafjörðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×