Allt stefnir í hjarðónæmi gegn veirunni eftir einn og hálfan til tvo mánuði að sögn sóttvarnalæknis - því að það eru hægt og rólega allir að sýkjast. Þar með ættum við að vera laus undan oki veirunnar í það minnsta um stundarsakir að því gefnu að ekki komi til nýtt afbrigði.
„Mér fyndist það frekar ólíklegt að við fengjum eitthvað algerlega nýtt afbrigði sem væri hættulegt og bólusetning og fyrra smit myndi ekki vernda,“ segir Þórólfur.
Of mikið hefur borið á því að sögn sóttvarnalæknis að fólk sé að fara í sýnatöku að nauðsynjalausu, enda séu afköstin ekki ótakmörkuð í greiningu sýnanna.
„Við erum aðeins að reyna að slá á það pínulítið, vegna þess að við höfum ekki ótakmarkaða getu til að greina sýnin. Hún mun skerðast nokkuð á næstunni. Þannig að við biðlum til fólks að vanda sig við að fara í sýnatöku, helst þá sem eru með einkenni, klárlega. Það geta síðan verið aðrar ástæður en ekki bara þegar manni dettur það í hug.“
Hjarðónæmi miðar við að 70% eða jafnvel 80% smitist af veirunni, sem verður ekki án afleiðinga þótt veikindi séu væg af völdum omíkron-afbrigðisins.
„Menn eru að sjá strax núna ýmsar langtímaafleiðingar af Covid. Menn eru að tala um aukningu í sykursýki hjá börnum eftir smit, menn eru að tala um alls konar þreytu, andlega vanlíðan og önnur einkenni eftir Covid-smit,“ segir Þórólfur.
„Þannig að ég held að við eigum eftir að fá að vita miklu meira um þetta á næstu mánuðum.“