„Að okkar mati hefur lítið breyst sem réttlætir þessar lækkanir hérna heima. Félögin í Kauphöllinni standa flest sterk og eru líkleg til þess að skila góðri afkomu á næstunni,“ segir Halldór Kristinsson, forstöðumaður hlutabréfa hjá Landsbréfum.
Miklar hræringar hafa átt sér stað á erlendum hlutabréfamörkuðum. Í gær féll vísitalan S&P 500 um fjögur prósent áður en hún náði sér aftur á strik. Vísitalan sveiflaðist um 4,4 prósent yfir daginn sem er mesta flökt vísitölunnar á einum degi frá því í mars 2020 þegar áhyggjur af kórónuveirunni lituðu fjármálamarkaði.
Í dag lækkaði vísitalan síðan um 2,6 prósent og stefnir í að þetta verði versta gengi S&P 500 í janúarmánuði frá upphafi. Þá hefur heimsvísitala hlutabréfa lækkað um rúm 7 prósent frá áramótum og hefur tæknigeirinn, sem er næmastur fyrir vaxtahækkunum, leitt lækkanirnar.
Á meðal þess að hreyfði við fjárfestum eru væntingar um að Seðlabanki Bandaríkjanna hækki vexti og dragi úr magnbundinni íhlutun, þ.e. uppkaupum á skuldabréfum.
Jay Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að verðbólga sé „alvarleg ógn“ gagnvart efnahagsbatanum þar í landi en í desember mældist tólf mánaða verðbólga 7 prósent. Hún hefur ekki verið meiri í nærri fjóra áratugi. Ofan á væntingar um vaxtahækkanir bætast síðan vaxandi áhyggjur af átökum í Úkraínu.
Halldór hjá Landsbréfum segir marga krafta að verki sem leiði til þess að fjárfestar endurverðmeti vaxtarfyrirtæki og einnig félög sem högnuðust óvenjumikið í faraldrinum.
„Við svona miklar hreyfingar koma fram veðköll eftir því sem fjárfestar selja sig niður til að dekka tapið,“ segir Halldór. „Það skilar sér svo inn á innlenda markaðinn í formi minni áhættuvilja og væntinga um framboð innlendra bréfa frá erlendum fjárfestum.“
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um 6 prósent frá áramótum og þar af um tæp 4 prósent á síðustu þremur viðskiptadögum.
Halldór segir að fjárfestar hafi haldið að sér höndum og búið sig undir sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Verðbreytingar á markaðinum hafi því orðið ýktari.
Óðinn Árnason, sjóðstjóri hjá Stefni, tekur í sama streng. „Væntingar um sölu á stórum hlut í Íslandsbanka valda því að fjárfestar eru ansi sparir á lausafé. Velta á markaði hefur því minnkað aðeins og verðbreytingar eru ýktari.“
Við svona miklar hreyfingar koma fram veðköll eftir því sem fjárfestar selja sig niður til að dekka tapið.
Óðinn bendir á að samsetning íslenska markaðarins sé hagfelld á tímum vaxtahækkana.
„Það er lítið um eiginleg vaxtafélög með sjóðstreymi í fjarlægri framtíð, en á móti meira um virðisfélög sem hafa getað skilað eigendum reglulegum arði. Þannig ættu vaxtahækkanir, hér heima og ytra, að hafa minni áhrif á markaðinn en til dæmis í Bandaríkjunum,“ segir Óðinn.
Þrátt fyrir að innlendi markaðurinn hafi orðið fyrir áhrifum af lækkunum á erlendis telur Óðinn að til lengri tíma litið eigi þessi fylgni eftir að minnka í ljósi þess að samsetning markaðarins er frábrugðin og hagvaxtarhorfur betri.