Lífið

Meat Loaf er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Meat Loaf í New York árið 2019.
Meat Loaf í New York árið 2019. Getty

Bandaríski rokkarinn og leikarinn Meat Loaf er látinn, 74 ára að aldri.

Michael Green, umboðsmaður Meat Loaf til fjölda ára, staðfestir andlátið í samtali við Deadline. Hann lést í gær með eiginkonuna Deboruh sér við hlið. Ekki liggur fyrir hvað hafi dregið tónlistarmanninn til dauða en hann hafði um árabil glímt við bága heilsu.  

Tónlistarferill MeatLoaf, sem hét Michael Lee Aday réttu nafni, spannaði um sex áratugi, en hann seldi rúmlega 100 milljónir platna og birtist í rúmlega sextíu kvikmyndum. 

Platan Bat Out of Hell frá árinu 1977 er þannig ein af mest seldu plötum sögunnar. 

Þegar fyrrverandi lagasmiður Meat Loafs og náinn samstarfsmaður Jim Steinman, lést í apríl á síðasta ári skrifaði Meat Loaf: „Kem bráðum. Jimmy, bróðir minn. Fljúgðu, Jimmy, fljúgðu.“

Meat Loaf var þekktur fyrir eftirminnilegar sviðsframkomur. Hann sló aftur í gegn árið 1993 þegar hann gaf út plötuna Bat Out of Hell II þar sem var að finna dúndursmellinn I Would Do Anything for Love

Meðal annarra þekkta laga söngvarans má nefna Two Out Of Three Ain't bad, You Took the Words Right Out of My Mouth, More Than You Deserve og Dead Ringer For Love

Meat Loaf var sömuleiðis leikari og birtist meðal annars í myndinni Roadie fra 1979 og Crazy in Alabama og Fight Club frá árinu 1999. Hann kom einnig fram í fjölda sjónvarpsþátta, raunveruleikaþátta og Broadway-uppsetninga, þeirra á meðal Hair og Rocky Horror Show.

Í myndinni The Rocky Horror Picture Show frá árinu 1975 fór Meat Loaf eftirminnilega með hlutverk Eddie.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.