Þetta eru niðurstöður viðamikillar könnunar sem gerð var meðal félagsmanna Alþýðusambandsins (ASÍ) og BSRB. Þær voru kynntar á fundi félaganna í dag.
Sambærileg könnun var gerð fyrir ári síðan en þá reyndust um tveir af hverjum tíu félagsmönnum vera með slæma andlega heilsu.
Í ár voru þeir mun fleiri, næstum þriðjungur allra félagsmanna, ef marka má könnunina.

„Við mældum þetta í fyrsta sinn fyrir ári síðan, andlega líðan, og þá kom okkur á óvart, niðurstöðurnar að hún var slæm. Hún hefur versnað núna,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Aukið álag út af Covid verður þess valdandi að það er verri andleg líðan að mínu mati.“

Og sú ályktun er ekki úr lausu lofti gripin hjá Drífu því að helmingur þeirra níu þúsund sem tóku þátt í könnuninni finnur fyrir meira álagi í starfi vegna heimsfaraldursins. Könnunin var opin fyrir félagsmenn ASÍ og BSRB en þeir eru um 150 þúsund talsins.
Fara ekki til tannlæknis
Könnunin sýnir einnig að það er að stórum hluta til sami hópur sem kemur verst út úr þeim þáttum sem kannaðir voru. Það eru helst innflytjendur og einstæðar mæður.
„Við sjáum skýr tengsl á milli fjárhagserfiðleika og hvernig þér líður andlega og hvort að þú hafir þá efni á að sækja þér heilbrigðisþjónustu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Í könnuninni kom nefnilega fram að um helmingur launafólks hefði neitað sér um einhvers konar heilbrigðisþjónustu vegna þess að það hefur ekki efni á henni.
Þar nefna langflestir tannlæknaþjónustu en þrír af hverjum tíu hafa neitað sér um hana. Því næst koma sálfræðiþjónusta, sem um fjórðungur hefur neitað sér um og sjúkraþjálfun, sem um 15% hafa neitað sér um.

Könnunin mun hafa áhrif á komandi kjarasamningsviðræður
En hvað er hægt að gera í þessu? Krefjast verkalýðsfélögin þess að þessi þjónusta verði meira greidd niður af ríkinu?
„Ég held að það þurfi aðgerðir inni á vinnustöðum og í samfélaginu öllu til að tryggja aðgengi að þessari þjónustu fyrir þá sem þurfa á að halda sem að sömuleiðis væri meira niðurgreidd en hún er í dag,“ segir Sonja Ýr.
Niðurstöður könnunarinnar munu þá hafa áhrif á kjarasamningsgerð næsta vetur.
„Það er okkar hlutverk í kjarasamningum að birta raunveruleika launafólks,“ segir Drífa.
„Og niðurstaðan þarna segir mér að stór hluti af næstu kjarasamningum verður tekinn í samhengi við heilbrigði og húsnæðismál.“