Erlent

Skemmdirnar miklar og óttast að margir hafi dáið

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndir frá Tonga sýna að skemmdir eru töluverðar.
Myndir frá Tonga sýna að skemmdir eru töluverðar. AP/CPL Vanessa Parker

Tonga eyjaklasinn varð fyrir miklum skemmdum vegna stærðarinnar sprengigoss sem varð þar um helgina og flóðbylgju frá gosinu. Minnst eitt þorp gereyðilagðist og margar byggingar eru horfnar. Erindreki frá Tonga óttast að margir hafi dáið.

Enn sem komið er hafa tvö dauðsföll verið staðfest.

Þegar Hunga Tonga Hunga Ha'apai eldfjallið sprakk í loft upp á laugardaginn olli það miklum flóðbylgjum og öskufalli. Samband við Tonga-eyjar slitnaði og hefur flæði upplýsinga þaðan verið takmarkað síðan. Rúmlega hundrað þúsund manns búa í eyjaklasanum.

Sjá einnig: Eyjan nær alveg horfin

Myndir sem teknar voru úr flugvélum frá Nýja-Sjálandi sýna miklar skemmdir á þorpi á Mango-eyju og sömuleiðis á Atata-eyju þar sem heilu byggingarnar eru horfnar. Þetta segir Curtis Tu´ihalangingie, erindreki frá Tonga sem staðsettur er í Ástralíu, í samtali við Reuters fréttaveituna.

Hann segist óttast að dauðsföllin séu fleiri en vonast eftir að svo sé ekki.

Búist er við því að Tonga muni senda út formlega beiðni eftir aðstoð á næstunni en ríkisstjórn Nýja-Sjálands hefur þegar sent tvö skip af stað með vatnsbirgðir, björgunarteymi og þyrlu. Ástralar eru einnig að senda aðstoð.

ABC í Ástralíu segir ríkisstjórn Tonga-eyja hafa ráðlagt íbúum að halda sig heima svo þau andi ekki að sér mikilli ösku sem liggur yfir öllum eyjunum. Vísindamenn hafa varað við því að askan geti mögulega haft slæm áhrif á umhverfi eyjanna, vatn, dýralíf og fæðukeðju til langs tíma.

ABC hefur eftir starfsmönnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að margir íbúar Tonga geti ekki haldið til á heimilum sínum sem séu jafnvel ónýt eða hrunin. Hins vegar sé heilbrigðiskerfi eyjaklasans enn í góðu standi.


Tengdar fréttir

Aska þekur Tonga og hamlar hjálparstarfi

Um 200 manns vinna nú hörðum höndum að því að moka ösku af flugbrautinni á alþjóðaflugvelli Tonga því eins og stendur er ekki hægt að koma björgunarfólki og vistum til eyjaklasans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×