Fótbolti

Lewandowski og Put­ellas leik­­menn ársins að mati FIFA | Chelsea á þjálfara ársins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexia Putellas, besta knattspyrnukona í heim.
Alexia Putellas, besta knattspyrnukona í heim. Getty Images

Verðlaunahátíð Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, fór fram með pompi og prakt í kvöld. Robert Lewandowski var valinn besti leikmaðurinn í karlaflokki og Alexia Putellas í kvennaflokki. Þá voru Emma Hayes og Thomas Tuchel kosin þjálfarar ársins.

Valið á Putellas kom ekki á óvart þar sem hún vann Gullhnöttinn, Ballon d‘Or, undir lok síðasta árs. Þá er hin 27 ára gamla Putellas hluti af ógnarsterku liði Barcelona sem vann þrennuna á síðustu leiktíð og virðist ætla að gera slíkt hið sama í ár.

Robert Lewandowski var af mörgum talinn líklegastur til að vinna Gullhnöttinn í karlaflokki en allt kom fyrir ekki og Lionel Messi vann enn á ný. Hinn 33 ára gamli Lewandowski getur huggað sig við að vera FIFA-leikmaður ársins 2021.

Hann skoraði 41 mark í aðeins 29 deildarleikjum fyrir Bayern München á síðustu leiktíð. Á þessari leiktíð hefur hann skorað 23 mörk í 19 leikjum.

Chelsea á báða þjálfara ársins, Thomas Tuchel og Emmu Hayes. Undir stjórn Hayes vann Chelsea hina ensku þrennu; deildina, FA-bikarinn og deildarbikarinn. 

Emma Hayes er þjálfari ársins.Marc Atkins/Getty Images

Tuchel vann Meistaradeild Evrópu, komst í úrslit í FA-bikarnum og er kominn með Chelsea-lið sitt í deildarbikarsins.

Markverðir ársins eru Eduoard Mendy (Chelsea) og Christiane Endler (Lyon). Þá má sjá lið ársins hér að neðan.

Erik Lamela skoraði mark ársins og þá fékk danska landsliðið og starfslið þess háttvísisverðlaun FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×