Erlent

Lík breskrar konu sem fórst í flóð­bylgjunni á Tonga fundið

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Angela er sögð hafa verið að bjarga hundunum sínum þegar flóðbylgjan skall á. Angela rak dýrahjálparsamtök sem reyndu að finna flækingshundum heimili.
Angela er sögð hafa verið að bjarga hundunum sínum þegar flóðbylgjan skall á. Angela rak dýrahjálparsamtök sem reyndu að finna flækingshundum heimili. South Pacific Animal Welfare

Lík breskrar konu, sem varð undir í flóðbylgju sem skall á Tonga á laugardag, er fundið. Þetta segir bróðir konunnar en hún er sú eina sem fórst í flóðbylgjunni svo vitað sé. 

Stór flóðbylgja skall á Tonga á laugardagsmorgun sem fór af stað eftir að neðansjávareldgos hófst skammt frá eyjunum. Mikilvægir innviðir skemmdust í flóðbylgjunni, internet- og símasamband hefur víða fallið niður en ekki var talið að nokkur hefði farist í bylgjunni. 

Nick Eleini hefur þó tilkynnt að systir hans, Angela Glover, hafi farist í bylgjunni við að reyna að bjarga hundunum sínum. Samkvæmt hans bestu vitund var það eiginmaður Angelu, James, sem fann lík hennar. 

„Angela og James elskuðu líf sitt á Tonga og elskuðu fólkið á Tonga,“ sagði Eleini í samtali við fréttamenn fyrir utan heimili móður þeirra í Hove á Bretlandi. 

Eins og áður segir er andlát Angelu það fyrsta sem hefur verið staðfest í tengslum við neðansjávareldgosið sem hófst í eldfjallinu Hunga Tonga Hunga Ha'apai á laugardag, um 65 kílómetra norður af Nuku'alofa, höfuðborg Tonga þar sem Glover hjónin bjuggu. 

Samskipti við eyríkið rofnuðu þegar flóðbylgjan skall á og því enn óvitað hve mikil eyðilegging varð. 

Angela, sem var fimmtug, fluttist til Tonga þegar hún giftist eiginmanni sínum. James rekur þar húðflúrstofuna Happy Sailor en Angela rak dýrahjálparsamtökin Tongan Animal Welfare Society. Að sögn bróður hennar tóku samtökin að sér flækingshunda, reyndu að koma þeim í betra horf og finna þeim heimili. 


Tengdar fréttir

Tonga-eyjar orðnar eins og tunglið

Á Tonga-eyja­klasanum er um­horfs eins og á Tunglinu eftir gríðar­legt ösku­fall eftir neðan­jarðar­eld­gosið sem braust út í gær að sögn íbúa eyjanna. Þykkt ösku­lag hylur stóran hluta eyjanna alveg og hafa íbúar þeirra verið án raf­magns og síma­sam­bands síðan í gær.

Höggbylgja frá Tonga mældist í Bolungarvík

Eldgosið í neðansjávareldfjallinu Hunga Ha‘apai hefur kæft eyjaklasann í ösku. Fréttir frá eyjunum eru takmarkaðar en ekki hafa borist fregnir af dauðsföllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×