Erlent

Yfirvöld segja 225 hafa fallið í óeirðum í Kasakstan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Saksóknarar í Kasakstan segja að 225 hafi fallið í óeirðum þar í landi í byrjun mánaðar.
Saksóknarar í Kasakstan segja að 225 hafi fallið í óeirðum þar í landi í byrjun mánaðar. Getty/Pavel Pavlov

Yfirvöld í Kasakstan segja 225 hafa fallið í óeirðum í landinu í síðustu viku. Þar á meðal hafi verið 19 meðlimir öryggissveita. Líkamsleifar hinna föllnu voru fluttar í líkhús um landið allt í dag þar sem á að búa þau undir greftrun.

Þetta tilkynnti Serik Shalabayev, saksóknari í Kasakstan í dag. Hann sagði í yfirlýsingu að meðal hinna föllnu hafi verið almennir borgarar og vopnaðir óeirðarseggir, sem hafi verið drepnir af öryggissveitum. Frekari upplýsingar um þá sem féllu voru ekki veittar. 

Miklar óeirðir brutust út í Kasakstan í byrjun janúarmánaðar eftir að eldsneytisverð var hækkað verulega í landinu. Kasakstan er á lista þeirra ríkja sem framleiða mest jarðefnaeldsneyti og vakti hækkun á eldsneytisverði því mikla reiði meðal almennings. 

Fréttastofa Reuters bendir á í umfjöllun sinni að samkvæmt þeim dánartölum sem Shalabayev tilkynnti hafi óeirðirnar verið þær mannskæðustu í þrjátíu ára sjálfstæðissögu landsins. 

Shalabayev tilkynnti jafnframt að um 50 þúsund manns hafi tekið þátt í óeirðunum á landsvísu þegar mest lét þann 5. janúar. Þann dag brutust mótmælendur inn í banka, búðir og opinberar byggingar og kveiktu víða í. 

Óeirðirnar voru kveðnar niður um síðustu helgi með aðstoð rússneska hersins, en Kassym-Jomart Tokayev, forseti landsins, óskaði eftir aðstoð Rússa. Það tók rússneskar hersveitir aðeins nokkra daga að kveða mótmælin niður.

Tokayev greip einnig á það ráð að vísa forvera sínum og landsföður Nursultan Nazarbayev frá sem formanni öryggisráðs landsins og tók sjálfur við stöðunni. 

Þá hefur Tokayev gefið út fyrirskipun til löggæsluyfirvalda að forðast það að beita óeirðarseggi ofbeldi og vísað því til saksóknara að þyrma þeim sem ekki frömdu alvarlega glæpi. Þetta gerir hann eftir að kvartað var yfir ofbeldi og pyntingum í gæsluvarðhaldi. 


Tengdar fréttir

Pútín hampar sigri í Kasakstan

Vladimír Pútín Rússlandsforseti lýsti yfir sigri í morgun eftir að rússneska hernum tókst að berja niður mikil mótmæli í Kasakstan. Hann segir uppreisnarseggina njóta stuðnings erlendra hryðjuverkahópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×