Innherji

Átta prósent eignasafns Birtu verði í grænum fjárfestingum fyrir 2030

Hörður Ægisson skrifar
Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Birtu sem er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir upp á um 550 milljarða króna.
Ólafur Sigurðsson er framkvæmdastjóri Birtu sem er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir upp á um 550 milljarða króna.

Lífeyrissjóðurinn Birta hefur sett sér það markmið að um átta prósent af eignasafni sjóðsins verði í grænum fjárfestingum fyrir lok árs 2030. Ekki verði hins vegar veittur afsláttur af arðsemismarkmiði sjóðsins við val á slíkum fjárfestingum.

Byggt á áætlaðri stærð eignasafns Birtu yfir þetta tímabil – sjóðurinn er dag í fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með um 550 milljarða eignir í stýringu – og föstu skiptigengi fyrir einn Bandaríkjadal á móti íslenskri krónu má reikna með að um sé að ræða samtals 66 milljarða króna nýfjárfestingu í grænum verkefnum á þessum árum.

Greint er frá þessu í fjárfestingastefnu sjóðsins fyrir árið 2022, sem var birt í ársbyrjun, en Birta er á meðal margra annarra íslenskra lífeyrissjóða sem eru aðilar að alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC).

Það samstarf felur í sér að ná fram ákveðnum markmiðum í loftslagsmálum, til dæmis með fjárfestingu í félögum sem framleiða sjálfbæra orku eða tengjast með einum eða öðrum hætti orkuskiptum í samgöngum og iðnaði. Aðrar fjárfestingar koma einnig til álita en tilgangurinn er að þær byggi í grunninn á markmiðum um kolefnishlutleysi.

Sjóðurinn mun ekki veita afslátt af arðsemismarkmiði við val á grænum fjárfestingum heldur einungis horfa á það sem einn þáttinn af mörgum þegar afstaða er tekin til fjárfestinga.

Í nýrri fjárfestingastefnu Birtu segir að núverandi eignir sjóðsins sem falla undir þau skilyrði sem CIC setur sínum aðildarfélögum séu um 2,85 prósent af öllu eignasafni samtryggingardeildar sjóðsins, eða sem nemur um 15 milljörðum króna. Stefnir Birta að því að skýra frá því samhliða útgáfu fjárfestingarstefnu sjóðsins hvernig þetta hlutfall muni breytast á milli ára en í grófum dráttum sé áætlað að um 1 prósent af verðmæti eignasafnsins fari í grænar fjárfestingar á hverju ári þangað til lokamarkmiðinu verði náð.

„Í framtíðinni munu viðmið Birtu í þessum eignaflokki byggja á flokkunarkerfi ESB varðandi umhverfisvænar fjárfestingar (e. EU Taxonomy) sem nú er í innleiðingarferli. Beðið er eftir að þetta regluverk verði lögfest á Íslandi á næstu misserum en það fellur undir EES-samninginn sem Ísland er aðli að,“ segir í fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Þá er sérstaklega tekið fram að ávöxtun eigna Birtu muni ganga framar markmiðinu með aðild að CIC þannig að sjóðurinn mun ekki veita afslátt af arðsemismarkmiði við val á fjárfestingum heldur einungis horfa á það sem einn þáttinn af mörgum þegar afstaða er tekin til fjárfestinga.

Þátttaka sjóðsins í CIC-verkefninu sé sömuleiðis háð því að til staðar séu fjárfestingar hér á landi sem og erlendis sem uppfylli þau skilyrði og takmarkanir sem Birta gerir gagnvart sínum fjárfestingum.

Í nóvember á síðasta ári var greint frá því að þrettán íslenskir lífeyrissjóðir ætluðu að fjárfesta fyrir um 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart CIC og kynntu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fór fram í Glasgow í Skotlandi.


Tengdar fréttir

Þrjú fyrirtæki með yfir 90 prósent af kolefnisspori eignasafnsins

Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur birt ítarlegt mat á UFS-þáttum eignasafnsins en á meðal þess sem matið varpar ljósi á er að sú staðreynd að rekja má meira en 90 prósent af kolefnisspori innlenda eignasafnsins til þriggja skráðra fyrirtækja.

Sjálfbær útgáfa jókst um ríflega 40 prósent milli ára

Útgáfa sjálfbærra skuldabréfa á Íslandi nam 173 milljörðum króna á árinu 2021 samanborið við 122 milljarða króna árið 2020 samkvæmt tölum frá sjálfbærniteymi KPMG. Vöxtur í útgáfu sjálfbærra bréfa nam því 42 prósentum á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×