Fótbolti

AGF vill yfir hundrað milljónir fyrir bráðum samnings­lausan Jón Dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson er lykilmaður í liði AGF en mun að öllum líkindum yfirgefið félagið næsta sumar þegar samningur hans rennur út.
Jón Dagur Þorsteinsson er lykilmaður í liði AGF en mun að öllum líkindum yfirgefið félagið næsta sumar þegar samningur hans rennur út. Getty/Lars Ronbog

Danska knattspyrnufélagið AGF hefur sett háan verðmiða á landsliðsmanninn Jón Dag Þorsteinsson en hann verður samningslaus næsta sumar.

Samkvæmt heimildum fjölmiðilsins Ekstra Bladet er AGF ekki á þeim buxunum að leyfa Jón Degi að fara ódýrt í janúar þó það sé nær öruggt að hann muni yfirgefa félagið í sumar.

Talið er að AGF vilji fá 5.6 milljónir danskra króna fyrir leikmanninn, það gerir um það bil 110 milljónir íslenskra króna.

Jón Dagur var með betri leikmönnum íslenska landsliðsins á síðasta ári og hefur verið orðaður við lið í frönsku úrvalsdeildinni. Hann hefur leikið 16 A-landsleiki og skorað tvö mörk.

Hinn 23 ára gamli Jón Dagur er uppalinn hjá HK í Kópavogi en hefur einnig spilað með yngri liðum Fulham á Englandi ásamt Vendsyssel og AGF í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×