Sport

29 ára verðlaunahafi á ÓL og HM lést í bílslysi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Deon Lendore fagnar bronsverðlaunum á ÓL í London með félögum sínum í boðhlaupssveit Trínidad og Tóbagó. Hann er lengst til hægri.
Deon Lendore fagnar bronsverðlaunum á ÓL í London með félögum sínum í boðhlaupssveit Trínidad og Tóbagó. Hann er lengst til hægri. Getty/Jamie Squire

Það er þjóðarsorg á Trínidad og Tóbagó eftir að einn fremsti íþróttamaður þjóðarinnar í gegnum tíðina lést í bílslysi.

Hinn 29 ára gamli Deon Lendore lést eftir árekstur í Texas fylki í Bandaríkjunum. Hann var á leiðinni á milli Austin og College Station þegar hann missti stjórn á bílnum sem fór yfir á öfugan vegarhelming og fyrir annan bíl.

Ökumaður hins bílsins, 65 ára kona, slasaðist illa og var flutt á sjúkrahús.

Lendore keppti fyrir Texas A&M háskólann á sínum tíma og vann sem þjálfari við skólann. Hann var mjög sigursæll á háskólaferli sínum.

Ólympíunefnd Trínidad og Tóbagó sagði frá fráfalli spretthlauparans. „Orð geta ekki lýst sorg okkar yfir því að missa þrefaldan Ólympíufara og bronshafa á bæði Heimsmeistaramóti og Ólympíuleikum. Deon Leondre hefur verið okkur öllum innblástur innan sem utan vallar,“ segir í tilkenningu hennar.

Deon Lendore vann bronsverðlaun í 4 x 400 metra boðhlaupi á Ólympíuleikunum í London 2012 en hann tók einnig þátt í leikunum í Ríó 2016 og í Tókýó á síðasta ári. Hann hafði líka unnið þrenn bronsverðlaun á heimsmeistaramótum og einnig silfur í boðhlaupi á HM.

Á síðasta ári hljóp hann 400 metrana á 44,73 sekúndum þegar hann endaði í öðru sæti á Demantamóti í Stokkhólmi aðeins 0,1 sekúndu á eftir sigurvegaranum Kirani James frá Grenada.

„Ég er algjöru áfalli og harmi lostin,“ skrifaði jamaíska hlaupakonan Natoya Goule á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×