Ja Morant skoraði 29 stig í 116-108 sigri Memphis Grizzlies á Golden State Warriors þar á meðal fimm þeirra á lokamínútu leiksins. Morant var einnig með átta stoðsendingar og fimm fráköst.
Ziaire Williams og Tyus Jones voru báðir með sautján stig en Jones hitti úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum og var lykilmaður í fjórða leikhlutanum sem Memphis-liðið vann 29-18.
Tvær þriggja stiga körfur í röð frá Tyus Jones komu Memphis yfir í 109-100 þegar 3:33 voru eftir.
Golden State hafði skorað 39 stig í þriðja leikhlutanum og virtist ætla að landa sigrinum en heimamenn héldu Steph, Klay og félögum í átján stigum í fjórða leikhlutanum.
Stephen Curry var stigahæstur með 27 stig en Klay Thompson skoraði 14 stig í sínum öðrum leik eftir endurkomu sína eftir 31 mánaða fjarveru vegna meiðsla. Andrew Wiggins og Gary Payton II skoruðu báðir þrettán stig.
Curry var með þrennu því hann tók einnig 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
Phoenix Suns nýtti sér þetta og er nú eina liðið með besta árangurinn í deildinni eftir 99-95 útisigur á Toronto Raptors. Devin Booker skoraði 16 stig og körfuna sem kom Suns yfir í blálokin en Chris Paul hvar með 15 stig og 12 stoðsendingar.
Jae Crowder var stigahæstur hjá Phoenix með 19 stig og Deandre Ayton skoraði 16 stig en þetta er í fyrsta sinn í NBA sögunni sem Suns vinnu 31 af fyrstu 40 leikjum sínum á tímabili.
Toronto liðið var á mikilli siglingu og búið að vinna sex leiki í röð fyrir leikinn. OG Anunoby skoraði 25 stig fyrir Toronto, Pascal Siakam var með 22 stig og Fred VanVleet skoraði 21 stig í fyrsta tapi liðsins síðan 28. desember.
Brandon Ingram kórónaði frábæra 33 stiga frammistöðu sína með því að skora þrjár þriggja stiga körfur á síðustu 73 sekúndum leiksins þar af tryggði hann New Orleans Pelicans 128-125 sigur á Minnesota Timberwolves með þristi þegar minna en sekúnda var eftir.
- Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:
- Memphis Grizzlies - Golden State Warriors 116-108
- Washington Wizards - Oklahoma City Thunder 122-118
- Toronto Raptors - Phoenix Suns 95-99
- New Orleans Pelicans - Minnesota Timberwolves 128-125
- Chicago Bulls - Detroit Pistons 133-87
- Los Angeles Clippers - Denver Nuggets 87-85
NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.