Sport

Gaf góðri vin­konu sæti sitt á Ólympíu­leikunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Brittany Bowe og Erin Jackson.
Brittany Bowe og Erin Jackson. NBC

Bandaríski skautahlauparinn Brittany Bowe er einkar gjafmild ef marka má nýjustu fréttir Vestanhafs. Hún gaf vinkonu sinni, Erin Jackson, sæti sitt á Ólympíuleikunum eftir að Jackson datt til jarðar í úrtökumóti fyrir leikana og náði þar af leiðandi ekki að vinna sér inn sæti á leikunum sem fram fara í Peking frá 4. til 20. febrúar næstkomandi.

Erin Jackson er besti 500 metra skautahlaupari heims í dag. Hún er efst á styrkleikalista greinarinnar og var talin einkar líkleg til afreka í febrúar.

Þá hefur hún unnið fjögur af átta heimsbikarmótum á yfirstandandi tímabili.Henni tókst þó ekki að tryggja sér sæti á Vetrarólympíuleikunum í Peking þar sem hún rann og féll til jarðar í tímatökunni í úrtökumóti um síðustu helgi.

Fall Jacksons þýddi að hún endaði í þriðja sæti sem dugði ekki til þess að komast á leikana þar sem Bandaríkjunum var aðeins úthlutað tveimur sætum í 500 metra skautahlaupi kvenna að þessu sinni.

Á undan Erin voru þær Brittany Bowe og Kimi Goetz sem þýðir að þær eru á leið til Peking að keppa í 500 metra skautahlaupi. Nú hefur Bowe hins vegar ákveðið að gefa Jackson sæti sitt.

Hún hafði þegar tryggt sér þátttöku í 1000 og 1500 metra skautahlaupi og verður því meðal keppenda á Vetrarólympíuleikunum. Hún sagði að það hefði í raun ekkert annað komið til greina en að gefa Jackson sæti sitt þar sem hún hefði komist áfram hefði hún ekki dottið.

Bowe og Jackson eru báðar frá Flórída og eru nánar vinkonur. Mögulega hefur það spilað inn í ákvörðun hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×