Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir daginn hafa gengið vel en þetta er annar stærsti dagur vikunnar.
„Stærsti dagurinn verður á fimmtudaginn þá verða 3.900 börn úr skólunum en 3.600 í dag þannig þetta er mjög stór dagur og það gengur alveg ótrúlega vel,“ segir Ragnheiður.
Í gær fengu 1900 börn boð og mættu alls um fimmtán hundruð. Að sögn Ragnheiðar fór mætingin í gær fram úr björtustu vonum og virðist svipuð staða vera uppi í dag. Líkt og í gær verður börnum boðið upp á skemmtiatriði meðan á bólusetningu stendur til að létta stemninguna.
Leikskólabörnin mæta í næstu viku
Í heildina munu 17255 skólabörn á höfuðborgarsvæðinu fá boð í bólusetningu í vikunni en gera má ráð fyrir að það séu færri sem raunverulega geta mætt í bólusetningu.
„Það er náttúrulega einhver hluti af þeim búinn að fá Covid síðustu þrjá mánuði og svo er mikið af börnum í sóttkví núna, þannig við vorum að reikna með bara svona 50 prósent mætingu eða eitthvað svoleiðis en það virðist vera meiri mæting í það,“ segir Ragnheiður en það mun koma í ljós í lok vikunnar hversu mikil mætingin verður í raun og veru.
Leikskólabörnin voru ekki boðuð í vikunni en Ragnheiður segist reikna með að þau fái boð í næstu viku. Verið er að leggja drög að skipulaginu fyrir það en þau verða líklegast líka bólusett í höllinni.
„Við dreifum þeim líklega bara á alla dagana því þetta er bara einn árgangur. Fáum þau bara í litlum hópum, það er líklega skynsamlegast,” segir Ragnheiður.
Ekki hætt að boða í örvun
Það hefur sömuleiðis verið mikið að gera í örvunarbólusetningum fullorðna í vikunni en opið hús er fyrir þau milli tíu og tólf á daginn. Margir sem fengu bóluefni Janssen í sumar og örvunarbólusetningu í ágúst geta nú farið að mæta í seinni örvunarskammtinn.
Ekki var boðað í örvunarbólusetningu í þessarri viku vegna barnabólusetninganna en Ragnheiður reiknar með að það verði tekið upp aftur.
„Við munum örugglega taka það upp aftur í næstu viku, við ákváðum bara því þetta var svo stór pakki með börnin að vera ekki að boða en það má alveg koma sjálfur og óska eftir því,” segir Ragnheiður.