Innlent

Minni líkur á eld­gosi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Rauða línan á myndinni sýnir líklega staðsetningu á nýja kvikuganginum en svarta línan sýnir kvikuinnskotið sem átti sér stað í febrúar eða mars í fyrra. Appelsínugulir hringir tákna jarðskjálfta sem mælst hafa frá því að hrinan hófst 21. desember en grænu hringirnir eru eldri skjálftar.
Rauða línan á myndinni sýnir líklega staðsetningu á nýja kvikuganginum en svarta línan sýnir kvikuinnskotið sem átti sér stað í febrúar eða mars í fyrra. Appelsínugulir hringir tákna jarðskjálfta sem mælst hafa frá því að hrinan hófst 21. desember en grænu hringirnir eru eldri skjálftar. Veðurstofan

Dregið hefur úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga en skjálftahrina hófst á skaganum þann 21. desember síðastliðinn. Skjálftavirknina mátti rekja til nýs kvikuinnskots í Fagradalsfjalli og töldu margir sérfræðingar að eldgos væri í vændum. Eins og staðan er í dag, virðast minni líkur á eldgosi en áður var talið.

Líkön benda til að kvikuinnskotið nýja sé um það bil helmingi minna en það sem myndaðist í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum. Út frá líkönum og nýjustu mælingum er líklegast að kvikan í innskotinu sé byrjuð að storkna og því lengri tími sem líður án breytinga í virkni, því minni líkur eru á að atburðarásin endi með eldgosi. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Vísindamenn munu þó halda áfram að fylgjast vel með svæðinu. Nýjar myndir frá gervitunglum eru væntanlegar í vikunni, sem munu koma til með að hjálpa sérfræðingum að meta nánari þróun mála á Reykjanesskaganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×