Erlent

Í­hugar að skikka borgar­starfs­menn til að þiggja örvunar­skammt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Adams tók við embætti um áramótin.
Adams tók við embætti um áramótin. AP/Seth Wenig

Eric Adams, borgarstjóri New York, sagðist í gær vera að íhuga að skylda starfsmenn borgarinnar til að þiggja örvunarskammt af bóluefnunum gegn Covid-19. Opinberir starfsmenn í New York hafa þegar verið skikkaðir til að þiggja bólusetningu.

Adams, sem tók við embætti borgarstjóra um áramótin, sagðist myndu rýna í nýjar tölur um úbreiðslu ómíkron-afbrigðisins og ákveða útfrá því hvort nauðsynlegt væri að krefjast þess að stéttir á borð við lögreglumenn og kennara fengju þriðja bólusefnaskammtinn.

Kathy Hochul, ríkisstjóri New York, greindi frá því í síðustu viku að um 600 þúsund nemendur í opinberum háskólum yrðu skikkaðir til að þiggja örvunarskammt.

Adams sagði í gær að nauðsynlegt væri að grípa til viðamikils skimunarprógrams nú þegar milljónir nemenda hæfu aftur nám í borginni en sagðist ekki telja tímabært að fyrirskipa bólusetningar barnungra nemenda.

Lloyd J. Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í gær að hann hefði greinst með Covid-19 og þjáðist af mildum einkennum. Austin fékk örvunarskammt í október og vika er síðan hann fundaði með Joe Biden Bandaríkjaforseta. Biden var prófaður í gærmorgun og fékk neikvæða niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×