Umræðan

Íslenskur hlutabréfamarkaður kemst á kortið

Magnús Harðarson skrifar

Árið 2021 var viðburðaríkt á hlutabréfamarkaði. Fjögur félög voru nýskráð í kjölfar vel heppnaðra útboða, Úrvalsvísitalan hækkaði um u.þ.b. 30% og viðskipti voru næstum 80% meiri en árið áður. Með öðrum orðum, félögum gekk vel að afla fjármagns, fjárfestar fengu úr fleiri valkostum að velja og nutu góðrar ávöxtunar og virkni markaðarins jókst. Frábært ár á alla hefðbundna mælikvarða. Það sem stendur þó upp úr í mínum huga er að íslenskur hlutabréfamarkaður komst á kortið hjá almenningi, fyrirtækjum og ríkinu sem og erlendum aðilum sem leggja mat á gæði hlutabréfamarkaða. Þessi vitundarvakning hefur leitt til grundvallarbreytingar á markaðnum sem þjóðin mun njóta ávaxtanna af til langframa.

Almenningur mætir sterkur til leiks

Nú eru um 30 þúsund Íslendingar hluthafar í félögum í Kauphöllinni samanborið við 9 þúsund fyrir tveimur árum. Nýr og stór fjárfestahópur er mættur til leiks! Hann hefur sýnt mátt sinn og megin í hlutafjárútboðum undanfarið ár. Svo kraftmikil innkoma almennings gjörbreytir fjármögnunarumhverfi fyrirtækja, sérstaklega nýsköpunar- og vaxtarfyrirtækja sem almenningur sýnir oft mikinn áhuga.

Þessi vitundarvakning hefur leitt til grundvallarbreytingar á markaðnum sem þjóðin mun njóta ávaxtanna af til langframa.

Auknir fjármögnunarmöguleikar á hlutabréfamarkaði fá svo fyrirtækin, m.a. ung félög í vaxtarhugleiðingum, til skoða skráningu á markað sem valkost. Sterkari hlutabréfamarkaður þýðir líka að auðveldara verður að fjármagna óskráð félög neðar í „fjármögnunarkeðjunni“ þar sem fjárfestar vita að til staðar er hlutabréfamarkaður sem liðkar fyrir eigendaskiptum á síðari stigum og þar sem hægt er að afla fjármagns til frekari vaxtar. Eins og áður segir tóku fjögur félög stökkið inn á hlutabréfamarkað á árinu og skráningarhorfur eru góðar. Á undanförnum tveimur áratugum hafa aldrei jafn mörg félög og nú verið samtímis í skráningarhugleiðingum.

Ríkisstjórnin setur tóninn

Ríkið var meðal þeirra fyrirtækjaeigenda sem nýtti sér möguleikana sem felast í breyttum aðstæðum og fjármagnaði hluta hallareksturs vegna Covid niðursveiflunnar með sölu á 35% hlut í Íslandsbanka. En ríkið gerði meira en að selja eignarhlut. Ríkisstjórnin nýtti einnig tækifærið til að hleypa almenningi að borðinu svo um munaði og efldi í leiðinni þennan mikilvæga innvið sem hlutabréfamarkaður er. Þá var lögð áhersla á að fá virta erlenda fjárfesta í hluthafahópinn. Innkoma þeirra á íslenska markaðinn mun vafalítið gagnast fleiri félögum á hlutabréfamarkaði í framtíðinni.

Á undanförnum tveimur áratugum hafa aldrei jafn mörg félög og nú verið samtímis í skráningarhugleiðingum.

Í nýjum stjórnarsáttmála eru viðruð áform um að auka frelsi einstaklinga til að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði. Ef einstaklingum verður gefið frelsi til að fjárfesta viðbótarlífeyrissparnaði í skráðum hlutabréfum yrði það vafalítið ein öflugasta aðgerð sem hægt er að hugsa sér til að auka beina þátttöku almennings í atvinnulífinu og um leið styrkja fjármögnun vaxtar- og nýsköpunarfyrirtækja. Vel launuðum störfum myndi fjölga og aukin nýsköpun er líkleg til að hafa víðtæk jákvæð efnahagsleg áhrif. Með þessu myndi líka fjárfestingarkostum sem almenningi standa til boða fjölga og fjölbreytni þeirra aukast. Með fleiri almenningshlutafélögum eykst gagnsæi í atvinnulífinu, samfélaginu til heilla. Ekki síst myndi almenningur fá stærri hlutdeild í arði af atvinnustarfsemi í landinu og tengsl almennings og atvinnulífs styrkjast.

Stærri og virkari hlutabréfamarkaður hefur vakið athygli erlendra úttektaraðila. Vísitölufyrirtækið MSCI tók Ísland inn í flokkun sína (sem „Frontier“ markað) í fyrsta sinn í maí og FTSE vísitölufyrirtækið greindi frá því í september að það hefði fyrirætlanir um að hækka flokkun Íslands (úr „Frontier“ í „Emerging“ markað) í september á næsta ári, en íslenski markaðurinn var fyrst tekinn inn í flokkun FTSE árið 2019. Erlendir fjárfestar líta mjög til gæðamats FTSE og MSCI. Þessar ákvarðanir fyrirtækjanna á árinu eru því mikilvæg viðurkenning á auknum gæðum markaðarins og til þess fallnar að auka fjárfestingar erlendra aðila. Hækkun FTSE á flokkun Íslands myndi t.a.m. hafa í för með sér erlent innflæði upp á marga tugi milljarða króna.

Ef einstaklingum verður gefið frelsi til að fjárfesta viðbótarlífeyrissparnaði í skráðum hlutabréfum yrði það vafalítið ein öflugasta aðgerð sem hægt er að hugsa sér til að auka beina þátttöku almennings í atvinnulífinu og um leið styrkja fjármögnun vaxtar- og nýsköpunarfyrirtækja.

Hlutabréfamarkaður fyrir betra samfélag

Árið 2021 var því gott ár á hlutabréfamarkaði, ekki bara mælt í „dægurtölum“ um verðbreytingar og viðskipti heldur hafa orðið grundvallarbreytingar til góðs. Það lýsir sér í jákvæðari umræðu og meiri samstöðu um hlutverk markaðarins. Það er vel enda miklir möguleikar til að nýta markaðinn enn frekar samfélaginu til góðs. Grunntilgangur Nasdaq er enda að stuðla að vexti og velmegun í samfélögum, með því að knýja áfram öflug hagkerfi og skapa jöfn tækifæri. Sóknarfæri eru mikil í aukinni nýsköpun, auknu aðgengi almennings og grænni fjármögnun. Markaðurinn getur verið öflugt tæki til að ná markmiðum okkar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki vantar efnileg „græn“ íslensk fyrirtæki, sem myndu vekja áhuga fjárfesta og gætu nýtt hlutabréfamarkað til að efla starfsemi sína.

Höfundur er forstjóri Kauphallarinnar á Íslandi.


Tengdar fréttir

Kauphöllin laðar til sín tugi milljarða ef íslensk bréf færast upp um flokk hjá FTSE

Góðar líkur eru á því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verði færður upp um flokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell á næsta ári og má þá búast við innflæði upp á tugi milljarða króna frá erlendum sjóðum sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við vísitölur fyrirtækisins. Þetta segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.




Umræðan

Sjá meira


×