„Svona er nú bara lífið,“ er setning sem mikið er notuð í minni fjölskyldu. Eins óskaplega og hún fór í taugarnar á mér á mínum yngri árum, sér í lagi þegar „Katrín mín“ var skeytt við hana, hefur fallegt æðruleysi þessara einföldu orða orðið mér mikilvægara með aldrinum. Lífið hendir í okkur allskyns áskorunum sem við höfum litla eða enga stjórn á og þá er ekki annað hægt en gera sitt besta, standa upp aftur og halda áfram. Í gegnum heimsfaraldurinn hafa stjórnvöld, heimili og fyrirtæki náð að tækla áhrif sóttvarnatakmarkana og óvissu nánustu framtíðar með aðdáunarverðum hætti. Með samstöðu, útsjónarsemi og dassi af æðruleysi höfum við siglt í gegnum þetta og jafnvel séð jákvæðar breytingar eiga sér stað. Þegar Ómíkron afbrigðið fór að hrekkja heimsbyggðina nú fyrir jól varð þó ekki hjá því komist að hugsa til þeirra hópa sem sóttvarnaraðgerðirnar hafa mest áhrif haft á. Listafólkið okkar, veitingafólk, námsmenn, ferðaþjónustan, heilbrigðisstarfsfólk og kennarar sem hafa annað hvort lent í viðvarandi tekjutapi eða þurft að vinna baki brotnu við erfiðar aðstæður í gegnum þetta.
Misskipt áhrif
Fjölbreyttar aðgerðir stjórnvalda hafa stutt við hagkerfið og verið nokkuð vel heppnaðar. Ef við erum að sigla inn í annan vetur þar sem miklar hömlur verða á hluta hagkerfisins er ljóst að við þurfum að vera óhrædd við að halda aðgerðum áfram. Við vitum meira um áhrifin núna og þá er auðveldara að miða þeim þangað sem mest þarf. Áhrifum heimsfaraldurs hefur nefnilega verið afar misskipt. Aðgerðir fjármálafyrirtækja hafa einnig verið nokkuð umfangsmiklar í gegnum þetta og innan þeirra verið ríkur vilji til að vinna með viðskiptavinum innan þess ramma sem þeim er heimilt. Hlutverk fjármálafyrirtækja í viðspyrnunni verður þá ekki síður mikilvægt. Því skiptir sterkur rekstur fjármálafyrirtækjanna miklu máli til að byggja undir þann nauðsynlega vöxt í hagkerfinu sem framundan er og fjölgun starfa.
Ef við erum að sigla inn í annan vetur þar sem miklar hömlur verða á hluta hagkerfisins er ljóst að við þurfum að vera óhrædd við að halda aðgerðum áfram.
Stóru stafrænu skrefin
Faraldurinn hefur hraðað stafrænni þróun fyrirtækja og stafrænni neyslu einstaklinga. Þannig hefur margt spennandi gerst í þeim efnum hjá fjármála-, trygginga- og greiðslumiðlunarfyrirtækjum og hafa stjórnvöld einnig stigið stór stafræn skref, til dæmis með rafrænum þinglýsingum. Einstaklingar hafa tekið þessari þróun vel og hefur orðið sprenging í notkun á stafrænni þjónustu þessara aðila. Stutt er í að við gleymum akstrinum með pappírana, biðröðunum og símsvaranum sem sagði okkur að við værum númer tólf í röðinni. Í stafrænum heimi stefnir í að við séu alltaf númer eitt í röðinni. Breytingar sem spara tíma neytandans og lækka kostnað eru af hinu góða. Af þessu leiðir þó að huga þarf enn betur að netvörnum hvort sem er af hálfu stjórnvalda, fyrirtækja eða einstaklinga. Netglæpir hafa verið fyrirferðarmiklir samhliða þessari þróun en góður undirbúningur og viðbrögð tæknifólks hafa komið í veg fyrir mikinn skaða. Það verður stóra verkefnið á komandi árum að auka netöryggi og koma betur í veg fyrir netsvindl og mikilvægt að allir aðilar rói í sömu átt með samstarfi. Þá skiptir fræðsla um þessa glæpi og árvekni einstaklinga miklu.
Netglæpir hafa verið fyrirferðarmiklir samhliða þessari þróun en góður undirbúningur og viðbrögð tæknifólks hafa komið í veg fyrir mikinn skaða.
Bjartsýniskast
Heimsfaraldurinn hefur breytt okkur og spurning hvaða áhrif það mun hafa til lengri tíma. Kynslóð hefur nú farið í gegnum framhalds- eða háskóla án þess að geta byggt upp tengslanet í gegnum öflugt félagslíf með sama hætti og við mörg þekkjum. Þá hefur það lúmsk áhrif þegar við, yfir langt tímabil, höfum búið við að áætlanir okkar og daglegt líf, í stóru og smáu, getur breyst með einu sms-i eða uppfærðum smittölum. Við höfum öll farið í gegnum svo mikla óvissu að það er óhjákvæmilegt að það breyti neyslumynstrinu. Þó Ómíkron hafi nærri því náð að drepa stemminguna þá hef ég verið í bjartsýniskasti undanfarna áratugi og það þýðir ekkert annað en að trúa því að næsta ár verði betra. Hegðun þessa afbrigðis gefur þessu bjartsýniskasti byr undir báða vængi ásamt þeirri útsjónarsemi og samstöðu sem hefur einkennt samfélagið okkar í gegnum þetta. Þegar á heildina er litið er ég þakklát fyrir að búa á Íslandi í heimsfaraldri og þakklát öllum þeim sem hafa staðið erfiðar vaktir í gegnum þetta.
Að lokum óska ég ykkur öllum gæfu og gleði á nýju ári og munum að svona er nú bara lífið.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.