150 heilbrigðisstarsmenn á Sheba sjúkrahúsinu í Ramat Gan fengu þennan fjórða skammt bóluefnis Pfizer í morgun og verða þeir nú undir smásjá. Verið er að kanna hvort skammturinn muni duga til að vernda fólk gegn ómíkron smiti og hvort vörn þessa fjórða skammts verði næg til að fara í fjórðu bólusetningu á almenningi.
Sérfræðingar heilbrigðisráðuneytis Ísraels mældu í síðustu viku með því að landið yrði leiðandi í rannsóknum á öðrum örvunarskammti bóluefnisins og byrjað væri á fólki yfir sextugu, þeim sem eru í áhættuhópi og heilbrigðisstarfsmönnum.
Það er nú í höndum Nachmans Ash, sóttvarnalæknis Ísraels, að ákveða hvort boðað verði til almennrar bólusetningar með fjórða skammtinum. Ísraelskir fjölmiðlar greina frá því að vegna skorts á rannsóknum um virkni fjórða skammtsins gæti vel verið að Ash muni byrja á annarri örvunarbólusetningu þeirra sem eru yfir sjötugu og muni láta heilbrigðisstarfsmenn bíða.
Um 63% Ísraela hafa fengið fyrstu tvær sprautur bóluefnis Pfizer samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti landsins. Tæplega 45% hafa fengið fyrsta örvunarskammtinn.
Í dag hafa tvö þúsund greinst smitaðir af ómíkron-afbrigði veirunnar þar í landi.