Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsanna segir að síðasti gesturinn í gær hafi komið í hús rétt fyrir miðnætti.
„Við höngum í þessari tölu 200 manns því það eru alltaf einhverjir sem útskrifast. Við eigum því herbergi laus,“ segir Gylfi.
Gestir héldu áfram að koma í morgun en nú þarf fólk að sækja um að dvelja í húsunum. Hann segir að aðfangadagskvöld hafi verið notalegt.
„Þetta var ósköp róleg stemning hjá okkur, það var kalkúnn í matinn og svo var fólk að fá gjafir sendar að heiman. Einhverji fengu mat að heiman og eftirrétt þannig að þetta var hæglát en þægileg stemning,“ segir hann.
Hann segir byrjað að bera á meiri veikindum.
„Það er aðeins farið að bera á meiri veikindum en engin alvarleg sem betur fer. En við erum að fylgjast vel með nokkrum,“ segir hann.
Á næsta ári er í skoðun að opna fimmta farsóttarhúsið.
„Ef þróun faraldursins verður svipuð áfram þá þarf að opna fimmta húsið. Við erum að gera okkur tilbúin í að opna það,“ segir Gylfi.
