Handbolti

Dómararnir óskuðu eftir að fá að draga rauða spjald Ágústs til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Birgisson gefur ekkert eftir í vörninni en átti aldrei að fá rautt spjald.
Ágúst Birgisson gefur ekkert eftir í vörninni en átti aldrei að fá rautt spjald. Vísir/Hulda Margrét

FH-ingurinn Ágúst Birgisson var rekinn snemma í sturtu í leik FH og Selfoss í Olís deild karla á dögunum en nú er fullsannað að það var rangur dómur.

Aganefnd Handknattleikssambands Íslands kom saman í gær og hefur hún nú skilað niðurstöðu sinni vegna agamála vikunnar.

Meðal málanna sem voru tekin fyrir var brotið hjá Ágústi sem hefði möguleika getað skilað honum í leikbann.

Ágúst fékk rautt spjald á 57. mínútu leiksins fyrir að fara í andlit Selfyssingsins Ragnars Jóhannssonar. FH-ingar voru mjög ósáttir með dóminn.

Dómarar leiksins sáu hins vegar að sér eftir að hafa skoðað atvikið betur. Þeir óskuðu því eftir að draga rauða spjaldið til baka. Fellst aganefnd á það og féll því málið niður.

Emma Olsson, leikmaður kvennaliðs Fram, og Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha, leikmaður karlaliðs HK, fengu bæði líka útilokun með skýrslu í leikjum sinna liða á dögunum en það var það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málanna.

Annað er að segja um Stevce Alusovski, þjálfara Þórs, sem hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu í leik Þórs og Vals U í Grill 66 deild karla þann 11.desember.

Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 a). Með tilvísun í 3. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það mat aganefndar að brotið geti verðskuldað lengra en eins leiks bann.

Handknattleiksdeild Þórs veittur frestur til klukkan 12.00 í dag, miðvikudaginn 15. desember, til að skila inn greinargerð vegna málsins og afgreiðslu þess var því frestað um sólarhring.

Bergþór Róbertsson leikmaður ÍR hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu í leik Berserkja og ÍR í Grill66 karla og hann var dæmdur í eins leiks bann.

Hér má lesa niðurstöðu agnefndar HSÍ frá 14. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×