Innherji

Bjarni segir auðvelt að koma í veg fyrir hagsmunaárekstrana sem Seðlabankinn varar við

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. 
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.  Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir auðvelt að koma í veg fyrir hagsmunaárekstrana sem Seðlabanki Íslands telur að geti orðið þegar æðstu stjórnendur ráðuneytisins sitja í stjórnum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Hann bendir á að áratugalöng hefð sé fyrir þessu fyrirkomulagi.

„Sjónarmið ráðuneytisins í þessu er að það er auðvelt að koma í veg fyrir slíka hagsmunaárekstra,“ segir Bjarni í samtali við Innherja.

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði sig úr stjórn LSR fyrr á árinu eftir að Seðlabanki Íslands hafði gert margvíslegar athugasemdir við stjórnarsetu starfsmanna ráðuneytisins, einkum æðstu stjórnenda þess, í lífeyrissjóðunum tveimur. Innherji greindi frá þessu í morgun.

Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fékk sömuleiðis sambærilega undanþágu frá forsætisráðuneytinu í apríl til að taka að sér aukastörf þegar fjármálaráðherra skipaði hann til að taka við af Guðmundi sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Ólíkt Guðmundi sagði Tómas sig ekki úr stjórn lífeyrissjóðsins eftir athugasemdir Seðlabankans.

Seðlabankinn, að því er kemur fram í bréfi bankans til fjármálaráðuneytisins frá því í vor, vill að ráðuneytisstarfsmennirnir víki alfarið úr stjórnunum en ráðuneytið er því ósammála. Er það mat Seðlabankans að slík stjórnarseta kunni „auðveldlega“ að valda hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði og jafnvel dregið úr trúverðugleika stjórnar lífeyrissjóðanna.

Seðlabankinn telur „vandséð“ hvernig æðsti yfirmaður ráðuneytisins – að Bjarna Benediktssyni ráðherra undanskildum – geti setið í stjórn í lífeyrissjóðs sem er umsvifamikill kaupandi ríkisskuldabréfa. Í árslok 2020 átti LSR um 228 milljarða króna af skuldabréfum með ríkisábyrgð.

„Ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við að Seðlabankinn hafi viljað velta upp sjónarmiðum í þessum efnum við ráðuneytið,“ segir Bjarni. „Þetta hefur sérstaklega komið inn á sjóndeildarhringinn þegar ríkið var aftur farið að stækka útgáfur sínar á markaði og Seðlabankinn var að velta fyrir sér að fara í magnbundna íhlutun sem reyndar ekki varð.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.Vísir/Vilhelm

Seðlabankinn boðaði kaup á ríkisskuldabréfum, svokallaða magnbundna íhlutun, fyrir allt að 150 milljarða í mars 2020 en þannig vildi bankinn tryggja að fjármagnsþörf ríkisins myndi ekki þrýsta upp ávöxtunarkröfunni. Bankinn hefur hins vegar ekki nýtt þetta hagstjórnartæki í miklum mæli.

Bjarni segir að fjármálaráðuneytið hafi brugðist við athugasemdum Seðlabankans og málið sé í biðstöðu í augnablikinu. „Hérna verður að hafa í huga að þetta er ekki nýtilkomið mál heldur er áratugahefð fyrir því að starfsmenn ráðuneytisins séu fulltrúar ríkisins í lífeyrissjóðum,“ bætir hann við.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×