Erlent

Tuttugu og sjö hermenn látnir fara fyrir að neita bólusetningu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Almennt er hlutfall bólusettra hermanna hærra en hlutfall bólusettra meðal almennra borgara.
Almennt er hlutfall bólusettra hermanna hærra en hlutfall bólusettra meðal almennra borgara. Getty/Chris Jung

Tuttugu og sjö bandarískir hermenn hafa verið látnir fara af bandaríska flughernum fyrir að neita að þiggja bólusetningu. Formlega skýringin á brottrekstrinum er neitun hermannanna við að fylgja fyrirmælum.

Allir bandarískir hermenn hafa verið skikkaðir til að láta bólusetja sig en flugherinn er fyrstur til að láta menn fjúka fyrir að fara ekki að þeim fyrirmælum. Talsmaður hersins segir að um sé að ræða ungt fólk sem hafi verið að hefja sín fyrstu skref innan heraflans.

Samkvæmt nýjustu tölum flughersins hafa í kringum þúsund bandarískir hermenn neitað að þiggja bólusetningu og um 4.700 sótt um undanþágu af trúarlegum ástæðum. Um 97 prósent hafa hins vegar fengið að minnsta kosti einn skammt.

Þess ber að geta að fjölda hermanna er vísað úr hernum á hverju ári fyrir að fara ekki að fyrirmælum. Þannig voru 1.800 látnir fara úr flughernum á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins.

Hermenn Bandaríkjahers hafa almennt verið duglegri við að láta bólusetja sig en hinn almenni borgari. Hinn 10. desember höfðu 96,4 prósent hermanna við störf fengið að minnsta kosti einn skammt. Hlutfallið fellur hins vegar í 74 prósent ef þjóðvarnar- og varaliðar eru teknir með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×