Innherji

Ráðuneytisstjóri sagði sig úr stjórn LSR eftir þrýsting frá Seðlabankanum

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði sig úr stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) fyrr á árinu eftir að Seðlabanki Íslands hafði gert margvíslegar athugasemdir við stjórnarsetu starfsmanna ráðuneytisins, einkum æðstu stjórnenda þess, í tveimur lífeyrissjóðum.

Seðlabankinn vill að ráðuneytisstarfsmennirnir víki alfarið úr stjórnunum en fjármálaráðuneytið er því ósammála. Er það mat Seðlabankans að slík stjórnarseta – hefð er sögð fyrir því að starfsmenn fjármálaráðuneytisins sitji í stjórnum LSR og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda – kunni „auðveldlega“ að valda hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði og jafnvel dregið úr trúverðugleika stjórnar lífeyrissjóðanna.

Þetta kemur fram í bréfi sem Seðlabankinn sendi á ráðuneytið þann 30. apríl síðastliðinn, sem Innherji óskaði eftir og fékk afhent á grundvelli upplýsingalaga. Þar segir meðal annars að „vandséð“ er hvernig æðsti yfirmaður ráðuneytisins – að Bjarna Benediktssyni ráðherra undanskildum – geti setið í stjórn í lífeyrissjóðs sem er umsvifamikill kaupandi ríkisskuldabréfa. Í árslok 2020 átti LSR um 228 milljarða króna af skuldabréfum með ríkisábyrgð.

Bent er á að hlutverk fjármálaráðuneytisins varðandi fjármögnun ríkissjóðs geti gert starfsmenn ráðuneytisins sem eru stjórnarmenn óhæfa til að koma að mótun og samþykkt fjárfestingarstefnu fyrir lífeyrissjóði. Það eigi til dæmis við um hversu háu hlutfalli eigna sjóðsins skuli varið til kaupa á ríkisskuldabréfum og mögulega öðrum fjárfestingarákvörðunum.

Þá nefnir Seðlabankinn að á meðal verkefna stjórnar lífeyrissjóðs sé að ákveða hverjir skuli vera fulltrúar sjóðsins í stjórnum þeirra félaga sem sjóðurinn á eignarhlut í. Stjórn LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins með um 1.200 milljarða eignir í stýringu, hefur þannig sett sér hluthafastefnu sem stjórnarmenn sjóðsins, þar á meðal starfsmenn ráðuneytisins, taka þátt í að móta og fylgja eftir.

Nauðsynlegt er að þegar verði horfið frá því að starfsmenn þess ráðuneytis sem fer með málefni fjármálamarkaðar sitji í stjórnum lífeyrissjóða.

Með hliðsjón af eignarhaldi ríkisins í fyrirtækjum á fjármálamarkaði – bankinn fer með um 98 prósenta hlut í Landsbankanum og 65 prósenta hlut í Íslandsbanka – þá er það mat Seðlabankans að það geti „augljóslega skapast hagsmunaárekstrar við setu starfsmanna, þá sérstaklega ráðuneytisstjóra, í stjórn í [LSR]“. Sjóðurinn er á meðal stærstu hluthafa í Arion, Kviku, Íslandsbanka og tryggingafélögunum Sjóvá og VÍS sem eru skráð á markað hér á landi.

Mat Seðlabankans eigi sér ekki stoð í lögum

Í bréfi Seðlabankans, sem Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits undirritar, segir að það sé því skoðun bankans að „nauðsynlegt sé að þegar verði horfið frá því að starfsmenn þess ráðuneytis sem fer með málefni fjármálamarkaðar sitji í stjórnum lífeyrissjóða.“ Mikilvægt sé að afstaða fjárráðuneytisins liggi fyrir sem fyrst, segir í bréfi Seðlabankans, svo hægt sé að ljúka hæfismati tiltekinna starfsmanna ráðuneytisins í stjórn í LSR og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.

Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins til Seðlabankans, sem er dagsett þann 2. júní síðastliðinn og Innherji fékk sömuleiðis afhent á grundvelli upplýsingalaga, er sjónarmiðum bankans um hættu á mögulegum hagsmunaárekstri hafnað. Er það afstaða fjármálaráðuneytisins að „mat Seðlabankans á nauðsyn þess að starfsmenn og stjórnendur ráðuneytisins víki alfarið úr stjórnum viðkomandi lífeyrissjóða eigi sér ekki stoð í lögum.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra í stjórn LSR í janúar á þessu ári en áður var hann stjórnarformaður Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda til tíu ára.VÍSIR/VILHELM

Fram kemur í bréfi ráðuneytisins að Guðmundur Árnason, sem hefur verið ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu frá árinu 2009, hafi sagt sig frá setu í stjórn LSR að afstöðnum ársfundi sjóðsins sem fór fram 25. maí á árinu. Er hins vegar sérstaklega tekið fram að sú ákvörðun feli „ekki að neinu leyti í sér að ráðuneytið taki undir sjónarmið Seðlabankans um skort á almennu hæfi hans til setu í stjórninni.“

Samkvæmt lögum frá árinu 2020 um varnir gegn hagsmunaárekstrum er æðstu stjórnendum í Stjórnarráði Íslands settar ákveðnar takmarkanir á að þeir geti tekið að sér aukastörf. Er þeim óheimilt að sinna aukastörfum samhliða embættisstörfum sínum en forsætisráðherra getur þó veitt undanþágu við tilteknar aðstæður.

Telur stjórnarsetu í lífeyrissjóði ekki tilfallandi starf

Í ársbyrjun 2021 fékk Guðmundur, sem hafði verið stjórnarformaður Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda samfellt frá 2010 fram í janúar 2021, samþykkta slíka undanþágu frá forsætisráðuneytinu til að setjast í stjórn LSR en almenn stjórnarlaun eru 187 þúsund krónur á mánuði. „Almennt verður að telja æskilegt að stjórnvöld eigi fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðs sem fer með svo mikilsverða hagsmuni ríkisstarfsmanna,“ segir meðal annars í rökstuðningi ráðuneytisins.

Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, fékk sömuleiðis sambærilega undanþágu frá forsætisráðuneytinu í apríl til að taka að sér aukastörf þegar fjármálaráðherra skipaði hann til að taka við af Guðmundi sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Eru stjórnarlaun formanns um 320 þúsund krónur á mánuði en ólíkt Guðmundi sagði Tómas sig ekki úr stjórn lífeyrissjóðsins eftir athugasemdir Seðlabankans.

Almennt verður að telja æskilegt að stjórnvöld eigi fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðs sem fer með svo mikilsverða hagsmuni ríkisstarfsmanna.

Seðlabankinn er ósammála ákvörðun forsætisráðuneytisins um að veita þeim undanþágu til að gegna aukastörfunum og bendir á að stjórnarseta, eins og í lífeyrissjóði, verði vert talin til tilfallandi starfa.

Í svarbréfi ráðuneytisins til Seðlabankans er gert lítið með þessa afstöðu bankans og segir að ákvörðun forsætisráðherra í þessum efnum sé endanleg á stjórnsýslustigi. „Niðurstöður hans í einstökum málum geta haft áhrif á aðra aðila, þar með talið stofnanir, og ekki verður ráðið af lögunum að þeir geti verið í aðstöðu til að véfengja þær, eða líta fram hjá þeim, á þeim forsendum að þeir telji að túlka beri lögin á annan hátt en forsætisráðuneytið gerir í sínum ákvörðunum,“ segir í bréfinu.

Hlutverk ráðuneytisins að vera eftirlitsaðili með sjóðunum

Seðlabankinn tiltekur sem fyrr segir fjölmörg dæmi um mögulega hagsmunaárekstra vegna setu starfsmanna fjármálaráðuneytisins í stjórnum LSR og Söfnunarsjóðsins. Þannig er bent á að fjármála- og efnahagsráðherra fari með framkvæmd laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stjórnarseta starfsmanna ráðuneytisins, og þá sérstaklega ráðuneytisstjóra, í lífeyrissjóði geti haft áhrif á hæfi þeirra til að koma að tilteknum málum tengdum framkvæmd laganna og með því haft áhrif á hæfi undirmanna þegar svo ber undir.

„Í því sambandi,“ útskýrir Seðlabankinn í bréfi sínu, „er rétt að hafa í huga að ráðuneytið veitir lífeyrissjóðum starfsleyfi og afturkallar þau. Þá staðfestir ráðuneytið breytingar á samþykktum lífeyrissjóða og taka þær ekki gildi fyrr en að lokinni staðfestingu.“

Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, var skipaður stjórnarformaður Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda í apríl. Hann hefur ekki sagt sig úr stjórn sjóðsins líkt og Guðmundur gerði.

Seðlabankinn færir fyrir því rök að líkja megi hlutverki ráðuneytisins í tengslum við framkvæmd laganna um starfsemi lífeyrissjóðanna við það eftirlitshlutverki sem bankinn hefur með sjóðunum. Í lögum um Seðlabankann sé þannig tekið sérstaklega fram að starfsmenn bankans megi ekki vera stjórnendur, starfsmenn, endurskoðendur, lögmenn eða tryggingastærðfræðingar eftirlitsskyldra aðila, eins og lífeyrissjóða. „Í framkvæmd hefur Seðlabankinn litið svo á að framangreind takmörkun eigi einnig við um setu í stjórnum eftirlitsskyldra aðila,“ segir í bréfinu.

Þá heldur Seðlabankinn því einnig fram að seta ráðuneytisstjóra í stjórn lífeyrissjóðs kunni að hafa áhrif á hæfi nefndarmanns í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans, sem jafnframt er starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins og þar með undirmaður ráðuneytisstjóra, til að taka þátt í meðferð mála hjá nefndinni. „Á það til dæmis við ef upp koma mál er varða þann lífeyrissjóð sem ráðuneytisstjórinn situr í stjórn hjá eða önnur mál sem kunna að hafa áhrif á þann lífeyrissjóð,“ kemur fram í rökstuðningi Seðlabankans. Þar er bankinn að vísa til Guðrúnar Þorleifsdóttur, skrifstofustjóra á skrifstofu fjármálamarkaðar í ráðuneytinu, en hún er á meðal nefndarmanna í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans.

Ætla má að ráðuneytisstjóri sem æðsti yfirmaður ráðuneytisins, að ráðherra undanskildum, kom beint að málum tengdum eignarhaldi ríkisins í lánastofnunum.

Seðlabankinn vekur einnig athygli á því í bréfinu að upp geti komið hagsmunaárekstrar vegna eignarhalds ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum. Bendir hann á að í lögum um Bankasýsluna, sem heldur utan um eignarhluti ríkissjóðs í Íslandsbanka og Landsbankanum, sé heimild fyrir ráðherra til að beina tilmælum til stjórnar stofnunarinnar um tiltekin mál í undantekningartilvikum auk þess sem ráðherra setur eigendastefnu ríkisins. Þá sé jafnframt endanleg ákvörðun um á sölu á hlutum ríkisins í lánastofnunum í höndum ráðherra en ekki Bankasýslunnar. Af því megi ætla að „ráðuneytisstjóri sem æðsti yfirmaður ráðuneytisins, að ráðherra undanskildum, kom beint að málum tengdum eignarhaldi ríkisins í lánastofnunum,“ segir í bréfi Seðlabankans.

Veldur ekki sjálfkrafa skorti á almennu hæfi

Í svari ráðuneytisins til Seðlabankans er nefnt að skipan stjórnar LSR – fjármálaráðuneytið tilnefnir fjóra af átta stjórnarmönnum sjóðsins – sé í fullu samræmi við það sem þekkist hjá þeim sjóðum sem sækja grundvöll sinn til ákvæða kjarasamninga, einkum nú þegar A-deild LSR nýtur ekki lengur óbeinnar bakábyrgðar ríkissjóðs. „Hefur ráðuneytið [því] litið á það sem einn af þeim þáttum þess að framfylgja hlutverki sínu sem talsmaður ríkisins sem vinnuveitenda að eiga fulltrúa í stjórn LSR.“

Guðrún Þorleifsdóttir, lengst til vinstri í efri röð, situr í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans en hún er skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu. Seðlabankinn taldi að stjórnarseta ráðneytisstjóra í LSR gæti haft áhrif á hæfi hennar til að taka þátt í meðferð mála hjá nefndinni.

Fjármálaráðuneytið hafnar jafnframt þeim málflutningi Seðlabankans að hætta sé á hagsmunaárekstri í tengslum við setu nefndarmanns í fjármálaeftirlitsnefnd sem er starfsmaður ráðuneytisins. Sá nefndarmaður „gæti þurft að víkja af fundum þegar tekin væru fyrir mál lífeyrissjóðs þar sem ráðuneytisstjóri situr í stjórn en það veldur því þó ekki sjálfkrafa að ráðuneytisstjóra eða aðra starfsmenn ráðuneytisins skorti almennt hæfi til að sitja í stjórn lífeyrissjóðs,“ að mati fjármálaráðuneytisins.

Þá telur ráðuneytið ekki að stjórnarseta starfsmanna þess í lífeyrissjóðum geri þá óhæfa vegna þess að sjóðirnir séu oft umsvifamiklir fjármögnunaraðilar ríkissjóðs. Vísar fjármálaráðuneytið til þess að samkvæmt ákvörðun ráðherra undirbýr skrifstofa opinberra fjármála stefnumörkun í ríkisfjármálum og fylgir eftir áherslum fjármálaráðherra og ríkisstjórnar í þeim málaflokki. „Hvorki skrifstofustjóri né almennir starfsmenn skrifstofu opinberra fjármála eiga sæti í stjórn lífeyrissjóðs,“ segir í svari ráðuneytisins.

Stjórnarseta ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins í LSR á fyrri árshelmingi 2021 var ekki eina aukastarfið sem hann sinnti samhliða embættisstörfum sínum. Í síðasta mánuði greindi Innherji frá því að Guðmundur hefði setið í stjórn Þjóðarsjóðs Ómanríkis frá árslok 2020 en hann hafði verið beðinn um að gefa kost á sér í sjóðinn sem óháður stjórnarmaður.

Ráðuneytið telur ekki að stjórnarseta starfsmanna þess í lífeyrissjóðum geri þá óhæfa vegna þess að sjóðirnir séu oft umsvifamiklir fjármögnunaraðilar ríkissjóðs.

Aðspurður sagðist Guðmundur hafa leitað eftir óformlegum sjónarmiðum frá Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitinu og Utanríkisráðuneytinu áður en hann þæði boð um setu í stjórninni.

„Þar kom ekkert fram sem talið var að gæti orsakað vanhæfi af nokkrum toga. Hagsmunir Íslands og Óman liggja hvergi saman eða skarast,“ sagði Guðmundur í svari til Innherja. Þá gerði fjármálaráðherra ekki athugasemdir við að hann þæði boðið.

Þjóðarsjóður Ómanríkis er í 39. sæti á lista Sovereign Wealth Fund Institute yfir stærstu þjóðarsjóði heims en talið er að eignasafn sjóðsins nemi 17 milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 2.200 milljarða íslenskra króna.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×