Formúla 1

Ver­stappen tryggði sér heims­meistara­titilinn á loka­hring tíma­bilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Max Verstappen og liðsfélagar hans í Red Bull Honda fögnuðu heimsmeistaratitlinum vel og innilega.
Max Verstappen og liðsfélagar hans í Red Bull Honda fögnuðu heimsmeistaratitlinum vel og innilega. Lars Baron/Getty Images

Max Verstappen varð í dag heimsmeistari í Formúlu 1 þegar hann hafði betur gegn sjöföldum heimsmeistara Lewis Hamilton í lokakeppni tímabilsins í Abu Dhabi. 

Verstappen hóf keppni á ráspól og Hamilton annar, en sá síðarnefndi fór betur af stað og tók forystuna. Verstappen þvingaði Hamilton út af brautinni og Bretinn þurfti því að stytta sér leið, en dómarar keppninnar sáu ekkert athugavert og Hamilton hélt forystunni.

Eftir að Verstappen og Hamilton höfðu tekið sitt fyrsta þjónustuhlé var liðsfélagi Verstappen, Sergio Perez, fremstur og hann átti stóran þátt í því að Verstappen skildi ná að minnka bilið á Hamilton með frábærum varnarakstri.

Hamilton jók þó forskot sitt á Verstappen og útlitið varð svartara með hverjum hringnum fyrir Hollendinginn. Hann gat þó andað léttar þegar stafrænn öryggisbíll var sendur út þegar tæpir tuttugu hringir voru eftir sem gaf honum tækifæri til að skipta um dekk og gera atlögu að Hamilton á ferskum dekkjum.

Fyrstu hringina eftir að öryggisbíllinn yfirgaf brautina gekk vel hjá Verstappen að saxa á forskot Hamilton, en þegar um tíu hringir voru eftir var það þó orðið ljóst að erfitt yrði fyrir hann að ná sínum helsta keppinaut.

Verstappen fékk þó himnasendingu þegar fjórir hringir voru eftir, en þá lenti Nicolas Latifi í árekstri og aftur þurfti öryggisbíll að koma inn á brautina. Verstappen fékk því annað tækifæri til að skjótast inn á þjónustusvæðið, sækja sér ný dekk, og láta vaða á ný.

Mikil spenna ríkti á lokahringjunum og um tíma leit út fyrir það að Hamilton myndi tryggja sér heimsmeistaratitilinn fyrir aftan öryggisbíl. Það mátti því heyra mikil fagnaðarlæti í Abu Dhabi þegar ljóst var að öryggisbíllin var á leið af brautinni þegar einn hringur var eftir.

Nýju dekkinn gerðu gæfumuninn fyrir Verstappen sem lét vaða nánast um leið og farið var af stað á ný. Hann tók fram úr Hamilton snemma á lokahringnum og hélt forystunni út kappaksturinn.

Þetta er fyrsti heimsmeistaratitill Verstappen á ferlinum, og hann er enn fremur fyrsti Hollendingurinn sem tryggir sér heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1.

Lewis Hamilton og lið hans, Mercedes, tryggðu sér heimsmeistaratitil bílasmiða áttunda árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×